140. löggjafarþing — 76. fundur,  21. mars 2012.

störf þingsins.

[15:15]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Í morgun bárust þau tíðindi að Seðlabankinn hefði ákveðið að hækka stýrivexti. Greinilega er ekki lengur til staðar það sem menn höfðu talað um af miklu öryggi af hálfu stjórnvalda, að hafið væri hið svokallaða vaxtalækkunarferli. Vaxtalækkunarferlið nam reyndar staðar fyrir alllöngu og að mati nánast allra þeirra sem hafa skoðað þessi mál hefur vofað yfir að fram undan væru vaxtahækkanir og nú höfum við séð fyrsta skrefið.

Það er augljóst hvaða áhrif þetta hefur. Þetta mun til dæmis hafa áhrif á skuldug heimili, ekki síst þau mörgu heimili sem hafa tekið í vaxandi mæli óverðtryggð lán. Þetta mun hafa áhrif á vaxtakostnað fyrirtækjanna, þetta mun draga úr fjárfestingu í landinu, þetta mun hafa þau áhrif í verslun og þjónustu að þessum kostnaðarauka sem mun bitna mjög hart á þeirri tegund atvinnulífsins verður velt út í verðlagið. Þannig sjáum við víxlverkunina.

Ríkisstjórnin hefur algjörlega misst taumhald á verðlaginu í landinu. Hið gamalkunnuga er að gerast, víxlhækkun verðlags og launa. Verðbólguskrúfan er að mjakast upp á við og þetta mun auðvitað hafa mjög vond áhrif á kaupmáttinn í landinu.

Því var spáð fyrir skömmu að við sæjum líka fram á stöðugleika í genginu. Ég var að skoða hagspár frá síðasta ári og þar var nánast einróma tal manna um að við sæjum á þessu ári tiltölulega mikinn stöðugleika í genginu. Við vitum að þetta hefur þróast öðruvísi og við sjáum líka að fram undan er engin breyting.

Þeir sem eru núna að velta fyrir sér verðlagsþróun á næstu mánuðum spá því allir að hér verði mjög umtalsverð verðbólga. Arion banki spáði í morgun að verðbólgan á fyrsta ársfjórðungi þessa árs yrði 6,4%. Ríkisstjórnin er algjörlega búin (Forseti hringir.) að missa tökin á efnahagsmálunum, hún ræður ekki neitt við neitt og hún er ráðalaus þegar kemur að þessu. Við erum því miður að sjá gamalkunnugt ástand spretta upp.