140. löggjafarþing — 76. fundur,  21. mars 2012.

störf þingsins.

[15:26]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með formanni efnahags- og viðskiptanefndar um mikilvægi þess að öll gögn um svokallað kaupþingslán verði kölluð fram á vettvangi nefndarinnar. Það er hið ágætasta mál enda mikilvægt fyrir þingmenn sem og almenning að við fáum öll um það upplýsingar hvaða gögn lágu til grundvallar þessari stóru ákvörðun. Á hvaða grundvelli var ákvörðunin tekin? Hér er um að ræða um 20% af gjaldeyrisforða þjóðarinnar, 80 milljarðar kr. undir og tugir milljarða tapast væntanlega. Eru einhverjar ástæður fyrir því að einhverjir þingmenn eða stjórnmálaflokkar standi í vegi fyrir því að öll gögn verði kölluð fram? Ég vona ekki. Ég vona að við þingmenn getum allir sammælst um að skoða þetta mál til hlítar.

Hér hefur talið einnig beinst að verðbólgu og vaxtastigi í landinu. Af hverju er verðbólga á Íslandi? Jú, hún á uppruna sinn að miklu leyti í því að íslenska krónan gefur eftir gagnvart erlendum myntum. Hér verður innflutningur dýrari, öll innkaup heimilanna á erlendum vörum eru dýrari frá mánuði til mánaðar. Enn og aftur er það skýrt í hugum allra að helsti skaðvaldur fyrir íslensk heimili og fyrirtæki er hin íslenska króna [Háreysti í þingsal.] og þar á verður að verða breyting ef þingmönnum er alvara, ef þeir vilja í raun og veru stuðla að kjarabótum fyrir íslensk heimili og skapa hér alvöruumhverfi fyrir fyrirtæki til að blómstra og dafna. (Gripið fram í.) Það er verkefni okkar sem í þessum sal störfum að ná sátt um þá vegferð að leiða aðildarviðræður við ESB til lykta svo þjóðin geti tekið afstöðu til þess hvort hún vill taka upp nýja mynt í þessu landi og skapa framtíðaríbúum þess betri framtíð með lægri verðbólgu og lægri vöxtum.