140. löggjafarþing — 76. fundur,  21. mars 2012.

störf þingsins.

[15:31]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Herra forseti. Hún kemur talsvert á óvart, þessi umræða um lánveitingar Seðlabankans frá árinu 2008, verð ég að segja. Þótt eitt og annað hafi verið að koma í ljós á undanförnum vikum um það mál er það fyrir löngu fullrannsakað. Ekki bara hefur rannsóknarnefnd Alþingis rannsakað þessi mál, á sínum tíma, heldur höfum við líka tekið þau til umfjöllunar hér áður í þinginu og afgreitt þau héðan. Þá hafa viðkomandi yfirvöld í þessu landi tekið þau mál sem til þeirra var beint til sérstakrar skoðunar og þau hafa lokið þeim hluta sem snýr að embættismönnum í kerfinu fyrir löngu. Síðan höfum við líka haft landsdómsmál í gangi að undanförnu eins og alþjóð veit. Þá stíga menn hér fram úr stjórnarliðinu og segja að þeir vilji taka þetta mál upp og rannsaka það aftur. Í sjálfu sér er ekkert við því að segja annað en að það er sjálfsagt að rannsaka allt sem menn telja að þurfi að rannsaka, en við skulum þá bara fara alla leið í því. Vilji menn að þingið verði upptekið í rannsóknum endalaust og nái varla að sjá út um framrúðuna næstu mánuðina og jafnvel árin, vegna þess sem gerðist á árunum 2006, 2007, 2008, hér er komin fram tillaga um að rannsaka einkavæðinguna sem hefur þegar fengið rannsókn, þá verður þjóðþingið upptekið af því og umræðan í þingsal mun þá litast af því að við erum að takast á um það sem gerðist fyrir mörgum árum.

Hversu lengi ætla stjórnarliðar, þessir tveir flokkar, að stýra þannig umræðum hér á þinginu að við verðum stödd á árinu 2008? Eða 2006 og 2007? Eða jafnvel fyrr, 2002 eins og nú er komin fram tillaga um?

Við erum tilbúin að rannsaka alla þessa hluti. Við skulum líka rannsaka það hvernig staðið var að undirritun Icesave-samninganna hér upphaflegu. Menn (VigH: Rétt.) nefna hér háar tölur, við skulum þá bara hafa það með í rannsóknunum. En hversu lengi ætla menn að vera þarna og hversu (Forseti hringir.) langan tíma á að taka að leiða þessa þjóð inn í nýja framtíð? Hversu langan tíma á það að taka? Það er spurningin sem stendur upp úr (Forseti hringir.) eftir þessa umræðu.