140. löggjafarþing — 76. fundur,  21. mars 2012.

úttekt á neytendavernd á fjármálamarkaði.

12. mál
[15:41]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við greiðum hér atkvæði um mikilvæga tillögu um að gera úttekt á og styrkja stöðu neytendaverndar á fjármálamarkaði. Forræði þessa málaflokks hefur því miður verið óskýrt og deilst á margar stofnanir á vegum mismunandi ráðuneyta. Þannig hefur það verið árum saman.

Verkefnið er að taka til í þessu kerfi, sameina neytendavernd á fjármálamarkaði hjá einum aðila svo neytendur í þessu landi geti sótt þjónustu og ráðgjöf á einum stað.

Meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar leggur til ákveðnar breytingar á tillögutextanum, vill afmarka verksvið nefndarinnar og gera það hnitmiðaðra, auk þess að setja starfinu tímamörk. Í öðru lagi leggur nefndin ríka áherslu á það að rödd neytenda verði sterkari innan nefndarinnar og leggur til breytingar á samsetningunni með það fyrir augum.

Efling neytendaverndar á fjármálamarkaði er mikið þjóðþrifamál sem þarf að setja í forgang. Heimilin í landinu hafa mátt þola óeðlilega háa vexti, verðtryggingu sem er í raun sérstakur krónuskattur á skuldug heimili og takmarkað viðskiptasiðferði hefur einkennt þennan málaflokk.

Ég þakka sérstaklega 1. flutningsmanni tillögunnar, hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, (Forseti hringir.) fyrir hennar mikilvæga frumkvæði og skora á þingheim að styðja þetta mál í dag.