140. löggjafarþing — 76. fundur,  21. mars 2012.

Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

272. mál
[15:49]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég stend vörð um Siglingastofnun vegna þess að við búum á eyju þar sem siglingar og flug eru helstu samgöngur við umheiminn. Vegakerfið er tenging innan lands þar sem við erum rétt rúmlega 300 þúsund íbúar, allt annað umhverfi okkar í flutningum er háð siglingum og flugi.

Næstu verkefni verða norðurslóðasiglingar. Það er mjög stór málaflokkur sem huga verður að. Ég tel að þessir málaflokkar séu ekki á réttum stað hjá Vegagerðinni þar sem Vegagerðin fæst nánast eingöngu við vega- og gangagerð. Lagt er til að því verði breytt í þessum frumvörpum.

Ég bað um að bæði þessi mál sem eru til afgreiðslu hér í dag færu í umhverfis- og samgöngunefnd á milli umræðna. Ég ætlaði að vera á móti frumvörpunum en vegna þess að orðið var við þeirri ósk að nefndin tæki þau aftur til umræðu og fengi til sín gesti (Forseti hringir.) ætla ég að sitja hjá að sinni en lofa engu með framhaldið.