140. löggjafarþing — 76. fundur,  21. mars 2012.

afbrigði um dagskrármál.

[15:58]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er mjög lýsandi fyrir þá stöðu sem endurskoðun stjórnarskrárinnar er í að við á þinginu skulum þurfa að sæta því að greiða afbrigði um það sökum tímaskorts hvort málið eigi að koma á dagskrá á þessum þingfundi. Það er ekki boðlegt þegar jafnstórt mál er undir og þetta, mál sem ríkisstjórnin hefur nú haft þrjú ár til að undirbúa fyrir þingið og taka almennilega umræðu um. Það er ekki boðlegt fyrir þingmenn sem eru önnum kafnir í nefndum við að sinna ýmsum málum að taka jafnstórt mál á dagskrá og sjálf endurskoðun stjórnarskrárinnar er með þetta skömmum fyrirvara. Ég leggst því gegn því að málið verði tekið á dagskrá með afbrigðum. Það verður að hafa sinn gang í þinginu eins og öll önnur mál.

Ég vænti þess að þingmenn Hreyfingarinnar séu mér sammála um þetta eins og þeir eru að jafnaði um afgreiðslu (Forseti hringir.) tillagna um afbrigði.