140. löggjafarþing — 76. fundur,  21. mars 2012.

afbrigði um dagskrármál.

[16:01]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Þær ræður sem við höfum heyrt frá stjórnarliðum áðan — og þá tel ég að sjálfsögðu hv. þm. Þór Saari í þeim hópi — eru lýsandi fyrir hversu illa hefur verið haldið á þessu máli. Það snýst nefnilega ekki um innihald, það snýst bara um orðræðuna, yfirlýsingar og sýndarmennsku vegna þess að hér er ætlunin (Gripið fram í: Fulltrúi …) að reyna að troða í gegn frumvarpi með slíkum ofsagangi að ætlunin er nú að láta almenning taka afstöðu í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu til máls sem er ekki vitað hvernig muni líta út. (Gripið fram í: Rétt.) Það er ekki vitað hvaða tillögu menn eru að greiða atkvæði um. Í raun ættu því aðeins skyggnir kjósendur eða kjósendur með spádómsgáfu að sjá ástæðu til að taka þátt í þessari þjóðaratkvæðagreiðslu.

Svona er ekki hægt að halda á breytingum á stjórnarskrá. Svona er ekki hægt að halda á stjórn lands. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) (Gripið fram í: Það væri nú betur komið í þínum höndum.)