140. löggjafarþing — 76. fundur,  21. mars 2012.

afbrigði um dagskrármál.

[16:04]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég styð það að þessi umræða fari fram. Ég er líka hlynntur því að niðurstaða stjórnlagaráðs verði látin ganga til þjóðarinnar, það ætti hún helst að gera í heild sinni. Ef menn ætla hins vegar að takmarka aðgang þjóðarinnar að álitsgerð sinni verður að bæta við spurningum.

Í niðurstöðum stjórnlagaráðs er gert ráð fyrir að bann verði sett við því að í almennri þjóðaratkvæðagreiðslu verði greidd atkvæði um fjárhagsleg málefni eða þjóðréttarlega samninga, eins og t.d. Icesave. Er ekki eðlilegt að beina því til þjóðarinnar hvort hún sé reiðubúin að láta afmarka rétt sinn með þessum hætti í stjórnarskrárbundnu ákvæði? Ég mun ekki geta stutt þetta mál nema tillögunum verði breytt að þessu leyti, það er alveg afdráttarlaust. (Gripið fram í: Gott hjá þér.)