140. löggjafarþing — 76. fundur,  21. mars 2012.

afbrigði um dagskrármál.

[16:05]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Í því máli sem nú mun ganga til atkvæða eru atriði sem krefjast mjög vandaðrar umfjöllunar. Ég ætla að benda á eitt, með leyfi forseta. Hér á að spyrja til dæmis spurningarinnar um hvort náttúruauðlindir verði lýstar þjóðareign. Ég vil undirbúa mig mjög vel fyrir slíka umræðu og ég reikna með að hv. þingmenn vilji gera það. Til dæmis þarf að fara vel í gegnum þá umræðu hvað átt er við með orðinu þjóðareign og hvað er átt við með orðinu náttúruauðlind.

Það er enginn bragur á því, virðulegi forseti, að Alþingi ýti þessu máli fram með þessum hætti. Þingsköpin gera ráð fyrir því að mál hafi ákveðinn tíma frá því að þau eru lögð fram þar til umræða hefst og ástæðan er sú að þingmenn hafi tíma til að kynna sér málið út í hörgul og ræða síðan um það í þingsalnum. Ef einhvern tíma, virðulegi forseti, er ástæða til að vanda sig og gefa sér tíma (Forseti hringir.) er það þegar verið er að ræða um stjórnarskrá. Ég hlýt því, herra forseti, að segja nei við því að veita þessi afbrigði.