140. löggjafarþing — 76. fundur,  21. mars 2012.

afbrigði um dagskrármál.

[16:10]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Í þessari umræðu um atkvæðagreiðsluna kristallast að mínu viti vandi Alþingis. Við stöndum hér og rífumst um eitthvað sem ætti ekki að þurfa að gera. Væru vinnubrögðin með þeim hætti að mál væru lögð fram með nægilegum fyrirvara og á yfirvegaðan hátt þyrftum við ekki standa hér í þessu.

Ég er á þeirri skoðun að það mál sem hér er verið að greiða atkvæði um að taka inn með afbrigðum sé mikilvægt og maður þurfi að kynna sér gögn til að geta tekið þátt í umræðunni. Ég tel mig ekki geta það og ég bið menn um að sýna því virðingu, ég tel mig hafa fullan rétt á því að skoða gögn betur og undirbúa mig betur en mér gefst tækifæri til hér og mun því segja nei við þessum afbrigðum.

Ég hvet okkur öll til að slaka aðeins á í því að láta hér í þingsalnum eins og við séum í einhverju kappliði, í einhverri Gettu betur keppni miðað við þau hróp sem hér berast úr þingsalnum, og við reynum að sýna hvert öðru aðeins smávirðingu og þeim sjónarmiðum sem við höldum fram í umræðunni. Þetta er stórt mál, (Forseti hringir.) menn fóru hér fram í síðustu kosningum og ætluðu að breyta hér vinnubrögðum. Horfum aðeins í eigin barm, erum við að því? (Gripið fram í.)