140. löggjafarþing — 76. fundur,  21. mars 2012.

skipan ferðamála.

623. mál
[16:22]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferðina. Í fljótu bragði virðist hér um gott mál að ræða og mikilvægt er að auka öryggi í ferðamálum. Það kemur reyndar fram í frumvarpinu að gerðar voru þrjár athugasemdir þegar það lá frammi til kynningar á vegum ráðuneytisins. Tekið var tillit til þeirra eins og kemur fram í frumvarpinu en mig langar aðeins að staldra við það sem hæstv. ráðherra fór yfir í lokin, þá auknu gjaldtöku sem á sér hér stað. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort ferðaþjónustuaðilar sem þurfa að greiða þessi gjöld hafi gert athugasemdir við áætlun um að hækka gjöldin. Það kemur fram í textanum frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins að til dæmis á að hækka gjald vegna útgáfu leyfa til ferðaskrifstofa úr 15 þús. kr. í 60 þús. kr. sem er um 300% hækkun. Síðan hækkar ferðaskipuleggjandaleyfi úr 10 þús. kr. í 45 þús. kr. eða um 350%, og gjald fyrir bókunarþjónustu úr 7.500 kr. í 15 þús. kr., eða um 100%. Síðan er líka áætlað að innheimta nýtt öryggisáætlunargjald sem verði 17 þús. kr. Þetta er gríðarleg aukning á gjaldtöku í ferðamannaiðnaðinum, ef ég má nota það orð, eða hjá ferðaþjónustunni.

Ég spyr aðallega hvort gerðar hafi verið athugasemdir við þessa gjaldtöku og síðan langar mig líka að biðja hæstv. ráðherra að útskýra aðeins fyrir mér hvernig þetta öryggisáætlunargjald á að virka. Ég átta mig ekki alveg á því. Gert er ráð fyrir því að það þurfi að fara yfir öryggisáætlanir í ráðuneytinu. Er gjaldið eingöngu til þess að dekka kostnað við að fara yfir þær eða eftir að búið er að gera það á öðrum vettvangi?