140. löggjafarþing — 76. fundur,  21. mars 2012.

skipan ferðamála.

623. mál
[16:25]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Hún svaraði þeim spurningum sem ég beindi til hennar. Í þessu örstutta andsvari vil ég bara aðeins staldra við hækkunina. Hér er verið að leggja fram hækkun á gjöldum um 350%, 300% og 100% og leggja á nýtt gjald sem er 17 þús. kr. Ég vænti þess að sú nefnd sem fær þetta mál til afgreiðslu fari sérstaklega yfir þetta, líka í ljósi þess að leyfin hafa hingað til verið ótímabundin en núna þarf að endurnýja þau á fimm ára fresti sem kostar mikil fjárútlát. Að mínu mati er ekki einungis verið að ganga fram með beinum skattahækkunum heldur er líka verið að hækka öll gjöld á atvinnulífið og ég staldra við það. Það má ekki vera þannig að slík gjöld verði hindrun, hjá kannski litlu ferðaþjónustufyrirtæki sem byggir á einum eða tveimur einstaklingum sem eru að ryðja sér braut í þessum geira, þetta eru stórar tölur í svoleiðis rekstri. Ég staldra því við þetta og vara við því að menn fari fram með þessum hætti. Auðvitað réttlæta eftirlitsstofnanir gjöldin alltaf þannig að þau þurfi að standa undir kostnaði við þjónustuna en við megum ekki heldur gleyma því að þeir sem sækja þjónustuna hafa ekkert um það að segja hvernig það er gert. Það eru oft ekki færð, auðvitað ekki alltaf, nægilega sterk rök fyrir því.

Þetta er enn ein skattahækkunin á atvinnulífið og ég vara við því að hún getur verið dálítið stór hluti af heildarrekstrarkostnaði til dæmis lítils ferðaþjónustufyrirtækis. En ég vonast til og þykist vita að sú hv. nefnd sem fer yfir frumvarpið muni skoða þetta sérstaklega.