140. löggjafarþing — 76. fundur,  21. mars 2012.

meðferð sakamála.

622. mál
[16:38]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil lýsa þeirri skoðun minni að þetta sé eitt af því sem við hljótum að taka til skoðunar við þinglega meðferð málsins. Dæmin sem hæstv. ráðherra nefnir um reynslu annarra ríkja koma þá með inn í þá skoðun.

Það sem ég hef áhyggjur af í þessu frumvarpi er að of skammt sé gengið, að það sé ekki mjög miklu bætt við núverandi heimildir lögreglunnar til að fylgjast með þeim sem eru að undirbúa brot, þótt aðeins séu lækkuð refsiviðmiðin eins og fram kemur í frumvarpinu sjálfu.

Það verður að taka mjög hart á glæpasamtökum eins og þeim sem nú eru farin að gera vart við sig og þegar komin í kast við lögin, glæpasamtökum sem hafa þann tilgang að starfa fyrir utan lög og reglu. Í stuttu máli hef ég (Forseti hringir.) nákvæmlega enga þolinmæði gagnvart slíkum félagsskap og tel að við eigum (Forseti hringir.) að beita fullri hörku til að uppræta slíkt á fyrstu stigum, þ.e. frá því (Forseti hringir.) að slík félög gera vart við sig hér á landi.