140. löggjafarþing — 76. fundur,  21. mars 2012.

meðferð sakamála.

622. mál
[16:44]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vek athygli á því að hæstv. ráðherra svaraði ekki spurningu minni. Ég vil sérstaklega draga fram að það er sannarlega samstaða um það bæði innan þings og utan, vonandi, að berjast af krafti gegn skipulagðri glæpastarfsemi. Ef við sjáum hins vegar við athugun okkar í allsherjar- og menntamálanefnd að þetta frumvarp ráðherra gangi of skammt í þeirri baráttu okkar verður ekki samstaða um það þannig að það sé sagt.

Ég treysti því sem lögreglan hefur gert í þessu máli fram til þessa. Við eigum líka að skoða það mjög gaumgæfilega að marka þinginu hugsanlega enn skarpari farveg, m.a. með eftirliti gegnum ákveðna þingnefnd, eftirliti með bæði störfum saksóknara og lögreglu þannig að tryggð verði ákveðin réttindi sem við viljum standa vörð um.

Já, ég vil líka skoða heimildirnar sem eru á Norðurlöndunum. Það er alveg skýrt að þessi glæpagengi eru ekki búin að festa rætur hér en þau eru á góðri leið með að ná því. Við erum í sérstakri aðstöðu, miklu betri aðstöðu en er á Norðurlöndunum. Við verðum að hafa að mínu mati (Forseti hringir.) sömu heimildir og þar eru því að við viljum þessi gengi burt. Ef þetta frumvarp (Forseti hringir.) gengur of skammt í þá veru verður ekki samstaða um það.