140. löggjafarþing — 76. fundur,  21. mars 2012.

meðferð sakamála.

622. mál
[16:46]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir málflutning hv. formanns Sjálfstæðisflokksins, Bjarna Benediktssonar, hvað varðar að fara aðra leið en gert er með þessu frumvarpi og vísa ég þá til þess sem stendur í 74. gr. stjórnarskrárinnar: „Banna má þó um sinn starfsemi félags sem er talið hafa ólöglegan tilgang …“ Það stendur skýrum stöfum í núgildandi stjórnarskrá.

Í frumvarpi hæstv. ráðherra vantar rökstuðning með þeirri leið sem verið er að fara. Engin tölfræði sýnir fram á að þessi leið sé heppilegri en önnur. Engin tölfræði sýnir fram á að þær þjóðir sem hafa farið þessa leið hafi náð að vinna á þessum samtökum. Svo ekki sé talað um að ef ganga á enn lengra, eins og margir þingmenn hafa talað fyrir, og beita jafnvel hlerunum án dómsúrskurðar þá hafa menn ekkert í höndunum um að sú leið skili árangri. Aðrar Norðurlandaþjóðir, sem oft er vísað til, sitja einfaldlega uppi með fullt af þessum gengjum án þess að (Forseti hringir.) sjáist högg á vatni.

Því lýsi ég eftir hvort hæstv. ráðherra hafi ekki einhverja tölfræði til reiðu handa okkur í þessu máli.