140. löggjafarþing — 76. fundur,  21. mars 2012.

meðferð sakamála.

622. mál
[16:50]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég heimsótti mótorhjólaklúbb á höfuðborgarsvæðinu fyrir nokkrum dögum sem vildi lítið hafa saman að sælda við þá sem eru hér til umræðu. Eitt af því sem þeir sögðu þegar ég beindi þeirri spurningu til þeirra hvort þeir teldu eðlilegt að banna merkin og banna klúbbana — nei, það vildu þeir alls ekki. Þeir vilja hafa menn merkta og aðgreinda. En þeir sögðu að aldrei þessu vant, þegar þeir ætluðu að panta hótel fyrir sumarferðina, hefðu þeir ekki fengið hótel. Hvers vegna? Vegna þess að samfélagið var að snúast gegn þessari starfsemi, en að þessu sinni á röngum forsendum — á grundvelli fordóma.

Þetta er það sem máli skiptir, að samfélagið snúist gegn þessu og sameinist gegn því. Þá er ágætt að hafa menn rækilega merkta í bak og fyrir þannig að þeir finni fyrir því hvar þeir eiga ekki heima.

Á þessu eru margar hliðar. (Forseti hringir.) Það er ekkert einhlítt svar, ég hef það alla vega ekki á reiðum höndum, en það er mikilvægt að við tökum þessa umræðu.