140. löggjafarþing — 76. fundur,  21. mars 2012.

meðferð sakamála.

622. mál
[16:52]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég virði það við hæstv. innanríkisráðherra að hann vill stíga varlega til jarðar í þessum efnum. Ég hef hins vegar áhyggjur af því, eins og sumir aðrir sem hafa tekið til máls, að fullvarlega sé stigið til jarðar og að þær breytingar sem frumvarpið hefur í för með sér muni ekki skila þeim árangri sem við gerum okkur kannski væntingar um.

Það er einn þáttur sérstaklega sem ég vil nefna í þessu sambandi. Það er eftirlit með þeim heimildum sem lögregla hefur og mun fá verði þetta frumvarp eða annað í sama anda samþykkt. Ég er að velta fyrir mér hvort hæstv. ráðherra geti látið í ljósi sjónarmið um að stórefla þurfi eftirlit. Við erum að tala um auknar heimildir, en þarf ekki að stórefla eftirlit líka (Forseti hringir.) með því hvernig heimildunum er beitt?