140. löggjafarþing — 76. fundur,  21. mars 2012.

meðferð sakamála.

622. mál
[16:54]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. innanríkisráðherra fyrir þessi svör. Ég er þeirrar skoðunar að mikilvægt sé að auka heimildir lögreglu til að beita því sem kallað er forvirkar rannsóknarheimildir. Ég held að það sé mikilvægt og ég held að það sé full ástæða til að stíga stærri skref en er að finna í þessu frumvarpi í þeim efnum.

Ástæða þess að ég nefndi þetta atriði í andsvari mínu við hæstv. innanríkisráðherra er hin hliðin á peningnum, þ.e. þegar yfirvöldum, lögreglu í þessu tilviki, eru færðar auknar heimildir þar sem augljóslega er í ákveðnum tilvikum sneitt nærri persónuverndarsjónarmiðum þá þarf að vera öflugt eftirlit líka. Eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra hefur það ekki verið nægilega öflugt á undanförnum árum. Vonandi er rétt sem fram kemur að það sé að batna, en það er hins vegar atriði sem við getum ekkert leyft okkur að spara. (Forseti hringir.) Við þurfum að horfa til þess að þarna er þjóðfélagslega mikilvægt verkefni sem þarf að sinna með sómasamlegum hætti.