140. löggjafarþing — 76. fundur,  21. mars 2012.

meðferð sakamála.

622. mál
[16:57]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Herra forseti. Ég ætla að bregðast stuttlega við þessari framsögu hæstv. ráðherra og lýsa þeirri skoðun minni að hér sé á ferðinni málaflokkur sem við þurfum að taka mjög föstum tökum, og um leið áhyggjum mínum af því að í frumvarpinu sé hugsanlega ekki nægilega langt gengið til að taka á vandanum.

Ég tel að í þeirri umræðu sem fram undan er hjá okkur beri að hafa í huga reynslu annarra þjóða, en einnig þá sérstöðu sem er hér á landi og lýsir sér í því að félagasamtök eða félög, gengi, eins og þau sem hafa verið í umræðunni í fjölmiðlum að undanförnu, hafa engar djúpar rætur hér, eiga sér enga sögu. Þess vegna höfum við núna tækifæri til að grípa inn í og koma mögulega í veg fyrir að þróunin veri sú sama hér á næstu árum og orðið hefur annars staðar.

Eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra hefur það ekki dugað nágrönnum okkar að stórauka heimildir lögreglunnar til að uppræta þá starfsemi sem þar hefur grafið um sig. Hugsanlega er það vegna þess að hún hafi þá þegar verið orðin svo rótgróin sem er annað en á við Ísland í dag.

Í þessari umræðu verður að sjálfsögðu líka að taka það með í reikninginn að við erum ekki eingöngu að reyna að ná til alþjóðlegra glæpahringja, sem starfa undir merkjum, heldur verðum við jafnframt að hafa í huga annars konar glæpahringi sem hingað vilja teygja arma sína. Af þeirri ástæðu er varasamt að einangra umræðuna um of við til dæmis ólöglega starfsemi sem fer fram undir merkjum mótorhjólagengja.

Ég tel jafnframt að í störfum nefndarinnar sé afar mikilvægt að farið sé mjög vandlega yfir eftirlit með rannsóknarþættinum. Það eru ekki margar vikur liðnar síðan við fengum fregnir af því hér í þinginu að ríkissaksóknari hefði ekki haft fjárráð eða mannskap til að gegna skyldum sínum lögum samkvæmt við eftirlit með notkun þeirra rannsóknarheimilda sem eru til staðar nú þegar. Í þessu frumvarpi er lagt upp með að ríkissaksóknari skuli skila allsherjarnefnd Alþingis sérstakri skýrslu um það hvernig meðferð þeirra heimilda sem hér er verið að opna á hafi verið næstliðið ár. Að sjálfsögðu hljótum við að horfa til þess, í ljósi þess sem ég hef hér rakið, að ríkissaksóknari virðist ekki hafa fjárráð eða mannskap til að gegna þeim skyldum sem á honum hvíla í dag og taka þá með í reikninginn að grípa þurfi til frekari ráðstafana.

Ég vil auk þess nefna að það er vel hugsanlegt ef ganga á lengra að það þurfi að koma þessum rannsóknarheimildum fyrir á sérstökum stað í kerfinu, eins og við sjáum að gert hefur verið í öðrum löndum. Öll okkar nálgun í þessum málaflokki á, að mínu áliti, að taka mið af þeirri sjálfsögðu kröfu borgaranna í landinu að vera frjálsir undan oki þeirra sem hafa þann yfirlýsta tilgang að brjóta lög og ganga hér berserksgang. Dæmin sem við höfum nú þegar séð eru nægjanlega hrollvekjandi til að vekja þingið til alvarlegrar umhugsunar um það hvernig taka eigi á þessu strax.

Eins og ég sagði áðan tel ég að við séum í þeirri stöðu í dag að hafa enn tækifæri til að taka fast á þessu. Það á að gera. Við eigum ekki að sýna þessari þróun nokkra minnstu þolinmæði. Það tel ég að við getum gert á sama tíma og við tökum ríkt tillit til friðhelgi einkalífs og persónuverndar eins og okkur ber að gera samkvæmt stjórnarskrá og skynsamlegt er til að um þessi mál geti tekist víðtæk sátt.