140. löggjafarþing — 76. fundur,  21. mars 2012.

meðferð sakamála.

622. mál
[17:02]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. innanríkisráðherra fyrir það frumkvæði að leggja þetta mál fram. Það snertir mikilvæga almannahagsmuni, þá hagsmuni að fólk geti búið hér á Íslandi frjálst án ótta við skipulagða glæpastarfsemi og þau ofbeldisverk sem oft og tíðum fylgja slíkri starfsemi. Þá vil ég líka geta þess að ég er ekki eingöngu að tala um vélhjólasamtök og fleira, heldur líka það sem við vitum að er að þróast víða um lönd. Við sjáum það gerast markvisst, á Norðurlöndunum en ekki síst annars staðar í Evrópu, að skipulögð glæpastarfsemi, með mansal, fíkniefni og fleira, er að festa þar enn frekari rætur. Ef við höfum ekki viðunandi tæki og tól í löggjöfinni er ég hrædd um að við getum ekki gert það sem þarf til að spyrna við fótum gagnvart þeirri annars vondu þróun.

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að hafa lagt þetta mál fram. Við höfum nú þegar til umsagnar í allsherjar- og menntamálanefnd þingsályktunartillögu frá hv. þm. Siv Friðleifsdóttur. Mér hefur verið falið það hlutverk, samkvæmt nýjum þingskapalögum, að vera framsögumaður þess máls.

Í því máli er rætt sérstaklega um að hér verði samþykkt að búa til frumvarp sem hafi löggjöfina á Norðurlöndum að viðmiði og ég er sammála þeirri nálgun. Ég velti því fyrir mér, þegar ég les þetta frumvarp ráðherra, hvort verið sé að breyta einhverju sem verulegu nemur. Jú, það er verið að lækka refsirammann úr átta árum niður í fjögur, en mér sýnist heimild til staðar í lögum í dag sem hægt er að flokka undir það, ef hugsanleg starfsemi flokkast undir almannahagsmuni er hægt að hefja rannsókn. Og menn hafa nýtt sér þær heimildir fram til þessa.

Þannig að ég efast um að sú leið sem hér er verið að fara af hálfu ráðherra dugi til að nýta það einstæða tækifæri sem við Íslendingar þó höfum í þessu annars nöturlega verkefni að berjast gegn skipulagðri glæpastarfsemi, að við séum hugsanlega að missa það tækifæri að koma í veg fyrir að þessi glæpastarfsemi festi rætur hér.

Það er alveg ljóst að slík starfsemi er enn frekar frumstæð hér á landi. Það má með sanni segja að þær ákvarðanir sem á sínum tíma voru teknar, meðal annars af hálfu þáverandi dómsmálaráðherra, Birni Bjarnasyni, og fleirum, að setja skýr mörk við að reyna að stoppa fólk við komu til landsins, hafi verið mjög afgerandi fráhrindandi skilaboð. Menn hugsa sig tvisvar um áður en þeir koma hingað til landsins. Við þurfum hins vegar á fleiri slíkum ákveðnum skilaboðum að halda.

Það er hins vegar þannig, það er rétt sem hefur komið fram, að tvenns konar hagsmunir vegast á; annars vegar friðhelgi einkalífs, persónuvernd og fleira og hins vegar það að menn vilja búa hér við öryggi, menn vilja vera lausir undan svona svakalegri glæpastarfsemi.

Ég verð að segja að fram til þessa hefur lögreglan ekki brugðist. Þegar menn vega og meta þessa hagsmuni verðum við að hlusta, og það mun ég gera þegar lögreglan kemur á fund nefndarinnar, á þær ráðleggingar sem lögreglan setur fram.

Ef menn eru hræddir, meðal annars í ljósi fortíðarinnar og sögunnar, sem við skulum alveg læra af, með tilliti til hlerana, skulum við einfaldlega fara í það að breyta kerfinu þannig að eftirlitið sé eins og það þarf að vera til að koma í veg fyrir misnotkun á kerfinu. Lögreglan hefur hins vegar aldrei gerst sek um slíkt.

Til að koma í veg fyrir að menn verði óþarflega hræddir við að víkka út heimildirnar og gera þær sambærilegar og því sem gerist á Norðurlöndunum verðum við einfaldlega að koma upp öflugri nefnd á vegum þingsins, ef til vill í gegnum allsherjar- og menntamálanefnd, sem gæti hugsanlega fengið þessar heimildir samhliða því að ríkissaksóknari hefði eftirlitsheimildir gagnvart hlerunum lögreglu, til að tryggja að slíkt sé ekki misnotað í annarlegum tilgangi. Það skiptir máli fyrir fjölskyldurnar í landinu að vita að hér er kerfi sem tekur á málum af þessu tagi.

Ég fagna því sem hæstv. ráðherra sagði í andsvari við mig áðan um framhald á framlögum til lögreglunnar til að berjast gegn skipulagðri brotastarfsemi. Það var samþykkt á vegum ríkisstjórnarinnar, og það var vel, að setja í þetta 47 milljónir. Mér fannst það til fyrirmyndar. Menn áttuðu sig einfaldlega á því að þetta væri verkefni sem þyrfti að taka á og það strax, ekki á næsta ári. Ég vil vekja athygli á því að í ágætri grein Stefáns Eiríkssonar, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, veltir hann því meðal annars fyrir sér hvort við hefðum átt að bregðast við fyrr, hvort við hefðum getað fundið aðferðir til að koma í veg fyrir það sem þó hefur gerst hér á landi.

Við stöndum frammi fyrir umhverfinu eins og það er í dag. Þess vegna fagna ég því að ríkisstjórnin hafi sett þessar 47 milljónir í málið, en það er mikilvægt að á því verði framhald þannig að þessi þráður slitni ekki, þessi þráður sem mér sýnist lögreglan hafa verið að nýta vel og spinna vel í kringum. Ég vil styðja lögregluna í þeim verkum áfram.

Ég bendi hins vegar á það sem er að gerast í umfjöllun nefndarinnar í öðrum málum, meðal annars hvað varðar forvirkar rannsóknarheimildir sem tengjast kynferðisbrotum gegn börnum. Þegar menn eru að reyna að nálgast börn á netinu, í gegnum Facebook eða annað, þá er verið að gera það refsivert með ákveðnum hætti, þannig að menn geti farið fyrr inn í það og gripið þessa menn.

Í því máli kom meðal annars umsögn frá ríkissaksóknara. Hann getur þess að ekki sé gert ráð fyrir framlögum til að fylgja þessu máli eftir, að vinna gegn því að netið verði leið til kynferðisbrota gegn börnum. Þar fylgir fjármagn ekki og ríkissaksóknari varar við því og bendir jafnframt á að lögum um vændiskaup, sem samþykkt voru á sínum tíma, fylgdi ekki fjármagn til að fylgja þeim eftir. Tilgangurinn getur verið mjög göfugur en þá verðum við líka að vera raunsæ. Lögreglan verður að fá fjármagn til að fylgja eftir vilja löggjafans, vilja til að stemma stigu við og koma í veg fyrir kynferðisafbrot gegn börnum, hvort sem netið er notað til þess eða annað, og það sama gildir varðandi þetta mál.

Í umsögn frá fjármálaráðuneytinu er þess ekki getið að þetta frumvarp muni hafa einhvern kostnað í för með sér eða aukið umfang og umsvif lögreglunnar. Þetta verðum við í nefndinni að skoða sérstaklega. Hæstv. ráðherra telur sig vera að víkka út heimildir lögreglu með einhverjum hætti — ég efast reyndar um að verið sé að breyta umhverfinu — en þá kostar það líka og við verðum að vera meðvituð um það.

Herra forseti. Ég vil undirstrika það sem ég sagði hér áðan að það er gott að þetta mál er komið til umræðu. Ég vonast til þess að við getum rætt þetta mál áfram samhliða því máli sem er í nefndinni sem gengur í raun lengra en þetta. Ég vonast til þess að í nefndinni verði meiri hluti til að skoða það mjög vel hvort við eigum að fara svipaðar leiðir og Norðurlönd til að stemma stigu við þessari brotastarfsemi.

Að svo mæltu vil ég draga það fram enn og aftur að það er mikilvægt að góð samskipti séu á milli allsherjar- og menntamálanefndar, lögreglunnar og innanríkisráðuneytisins, eins og verið hefur. Ráðuneytið hefur staðið sig vel varðandi alla upplýsingaöflun til nefndarmanna í allsherjar- og menntamálanefnd. Við gerum okkur enn betur grein fyrir því sem er að gerast. Við skiljum betur þörfina og nauðsynina, við skiljum betur hvað það er sem við þurfum að berjast gegn af öllu afli. Ég vil þakka fyrir það samstarf og þær upplýsingar sem hafa greinilega verið markvisst unnar af hálfu lögreglunnar og síðan verið miðlað til okkar. Þetta er samstarf sem verður að halda áfram um langan tíma.