140. löggjafarþing — 76. fundur,  21. mars 2012.

meðferð sakamála.

622. mál
[17:45]
Horfa

Magnús M. Norðdahl (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég er á þeirri skoðun að það geti verið til góðs að banna með skýrum hætti þau samtök sem nú eru starfandi og sem starfa í beinni andstöðu við viðeigandi ákvæði í stjórnarskrá, það eigi enginn að vera feiminn að banna það. Þessi félagsskapur er þekktur og meðlimir hans eru skráðir úti um allan heim og ættu ekki að vera vandkvæði á að banna þá.

Spurningin er öllu fremur: Kemur það í veg fyrir að skipulögð glæpastarfsemi verði í einhverjum slíkum félagsskap? Ég er ekki alveg sannfærður um það vegna þess að ég held að svona starfsemi finni sér alltaf einhvern farveg. Búningar meðlima og leðurvesti eða hvað eina sem það er sem menn ganga með — raunar er það alveg rétt að skipulögð glæpastarfsemi er ekki endilega klædd í leðurgalla allan daginn, þeir geta verið í fínum jakkafötum og við höfum séð ýmis dæmi um það í gegnum tíðina að svo er.

Já, ég held að banna eigi þessi samtök einfaldlega vegna þess að þá erum við að taka afstöðu gegn sýnileika þeirra. Þau eru neðan jarðar en við erum bara að segja: Þið sýnið ykkur ekki opinberlega, þið veitið ekki almenningi ógn með nærveru ykkar. Við erum á vaktinni, ég ætla ekkert að einkenna ykkur öðruvísi, þeir eiga bara að víkja til hliðar.

Hvernig á að haga eftirlitinu? Ég sé það fyrir mér að það eigi að vera samsettur hópur. Að sjálfsögðu skiptir miklu máli að menntaðir einstaklingar veljist í hann í því skyni að geta lagt mat á það sem lögregla er að gera eða vill gera, það á þá við um lögfræðinga. Ég held að það sé líka mikilvægt að þar séu aðrir þeir sérfræðingar sem geta skipt miklu, t.d. siðfræðingar, þegar verið er að meta það hversu langt við erum að fara. Erum við að fara inn á svið sem við eigum ekki að fara, hvað erum við að gera? Já, ég er sammála því að í slíkum hópi sé eftirlitinu best komið fyrir.