140. löggjafarþing — 76. fundur,  21. mars 2012.

meðferð sakamála.

622. mál
[18:22]
Horfa

Þráinn Bertelsson (Vg):

Herra forseti. Þegar á að koma í veg fyrir glæpastarfsemi er rétt að skoða í hverra verkahring það er að koma í veg fyrir að einhverjir aðilar semji sig ekki að siðaðra manna háttum og lifi utan þess gildismats sem tíðkast í samfélagi þeirra. Lögreglan sér vissulega um að lögum sé framfylgt. Þá er fyrsta forsenda þess að draga úr glæpastarfsemi sú að lög séu skynsamleg, að þau séu með þeim hætti að þjóðfélagið gangi út frá því að tryggja öllum borgurum ákveðin mannréttindi, ákveðin lífsskilyrði og ákveðið öryggi því að þar sem gæðum jarðarinnar er mjög misskipt er augljóst að meiri hætta er á glæpastarfsemi af ákveðnu tagi en í öðrum þjóðfélögum.

Við búum í þjóðfélagi sem er tiltölulega þróað, þar sem mannréttindi eru mestan part í hávegum höfð, en það skortir töluvert upp á að stjórnmálamenn, alþingismenn og eins sveitarstjórnarmenn taki alvarlega það hlutverk sitt að sjá til þess að öryggis borgaranna sé gætt með skynsamlegri setningu á lögum og reglum.

Dæmi um þetta er til dæmis höfuðborg lýðveldisins þar sem margra ára hefð er fyrir því að allir viti að lífshættulegt er að vera á ferli í miðborginni á tímanum frá klukkan eitt og fram undir morgun á föstudags- og laugardagskvöldum. Það er ekki lögreglunni að kenna að á hverjum einasta mánudagsmorgni í öllum fjölmiðlum skuli vera tiltekinn fjöldi ofbeldisbrota í miðborg Reykjavíkur undanfarna helgi. Það er ekki við lögregluna að sakast út af því að sveitarstjórnarmenn skuli hafa sett reglur sem leiða til þess að fólk sem er ofurölvi eða viti sínu fjær af eiturlyfjaneyslu sé á ferli að staðaldri um miðborgina á þessum tíma. Þær reglur sem skapa þá freistingu hjá fólki, sem vill bregða á leik eftir erfiða vinnuviku og sleppa fullkomlega fram af sér beislinu fram á nætur, hljóta að hafa afleiðingar. Þær afleiðingar sjáum við í fjölda ofbeldisbrota og nauðgana. Nauðganir eru vissulega alltaf viðbjóðslegar en það ofbeldi og sá viðbjóður sem er farinn að tíðkast í höfuðborginni í þessum efnum er kominn svo gersamlega út úr kortinu að það er kominn tími til að sá aðili sem ber meginhluta ábyrgðarinnar fari að bregðast við. Þá er ég væntanlega að tala um sveitarstjórnarmenn í því sveitarfélagi.

Fyrir ofan sveitarstjórnarstigið kemur löggjafarvaldið á Alþingi þjóðarinnar. Þar er eins gott að vanda til verka. Það þarf að velta því mikið fyrir sér hvers konar lagasetning muni lágmarka fjölda afbrota af ýmsu tagi og þar með takmarka þá byrði sem lögreglunni er skylt að axla.

Hér er verið að kynna í 1. umr. frumvarp til laga um breyting á lögum um meðferð sakamála sem snýst að verulegu leyti um auknar rannsóknarheimildir lögreglu. Við fyrstu kynni líst mér mjög vel á þetta frumvarp vegna þess að það þarf hugrekki til að stíga gegn þeim grunnhyggna fjölda sem lítur svo á að ofbeldi skuli mæta með ofbeldi. Ofbeldi á ekki að mæta með ofbeldi, ofbeldi á að mæta með kænsku og andlegum yfirburðum. Það er ekki hnefarétturinn sem á að ríkja í þjóðfélagi okkar heldur skynsemin. Í þessu frumvarpi frá innanríkisráðherra finnst mér skynsemin og hófsemin svífa yfir vötnum.

Hér er verið að fjalla um aðferð til að auka rannsóknarheimildir lögreglu og þá einkum og sér í lagi til að takast á við svokallaða skipulagða glæpastarfsemi, þá væntanleg til aðgreiningar frá óskipulagðri glæpastarfsemi. Þessi heimild er mjög takmörkuð, eins og lögin gera ráð fyrir, enda er sjálfsagt að takmarka rannsóknarheimildir lögreglu svo að mannréttindi borgaranna séu virt í hvívetna. Þá kann kannski mörgum að finnast erfitt að verja mannréttindi saklausra borgara án þess að takmarka heimildir eða getu lögreglu til að takast á við einbeittan brotavilja glæpamanna eða glæpasamtaka.

Nú eru glæpir af ýmsu tagi. Í seinni tíð hefur tíðni ofbeldisglæpa vaxið alveg gífurlega í þjóðfélagi okkar. Í skjóli þessara ofbeldisglæpa þrífst gjarnan alvarleg glæpastarfsemi eins og vændi, mansal, eiturlyfjasmygl, eiturlyfjasala og ólög peningalán svo ég tali ekki um ólöglegar innheimtuaðgerðir sem fela í sér líkamlegt ofbeldi sem er með öllu ólíðandi.

Það vill svo undarlega til að sumir af þessum skipulögðu glæpaflokkum eru svo elskulegir að þeir hjálpa lögreglu við störf sín með því að ganga í sérstökum einkennisbúningum. Það ætti þá ekki að vera ofverk löggjafans að banna þessi alþjóðlegu glæpasamtök, þ.e. þá anga þeirra sem teygja sig til Íslands. Það á að vera sjálfsagt á Alþingi að setja lög sem banna alþjóðleg glæpasamtök sem enginn þarf að velkjast í vafa um hver eru. Allir hugsa nöfnin um leið og ég minnist á þau og það á ekki að vera ofverk okkar að banna þessi samtök.

Það er að vísu fleiri glæpamenn en ofbeldismennirnir í leðurjökkunum sem ganga í einkennisbúningum. Það eru náttúrlega hvítflibbaglæpamennirnir, þeir sem áttu stærstan hlut að bankahruninu sem hér varð og setti margan manninn á vonarvöl og hafði gífurlegar afleiðingar fyrir þjóðfélag okkar. Það er frekar, að ég held, að forvirkar rannsóknarheimildir séu nauðsynlegar til að fylgjast með efnahagsbrotum en ofbeldisbrotum. Hitt er annað mál, að ofbeldisbrot er ekki hægt að líða í samfélaginu. Það verður að koma í veg fyrir þau þannig að ofbeldisbrot séu aðeins undantekning en ekki regla. Efnahagsbrot verða sennilega með okkur svo lengi sem græðgi er hluti af persónuleika mannkynsins.

Ofbeldisbrotin eru svo skelfileg að þau grafa undan þjóðfélagsgerð okkar. Þau valda ótta. Þau valda efasemdum um að þjóðfélagið hangi saman eins því er ætlað. Það vekur ugg hjá fólki að verða fyrir hótunum um ofbeldi sem lögreglan treystir sér ekki til að vernda það fyrir.

Við verðum bæði með lagasetningu okkar og með því að sjá til þess að lögreglan haldi sínu góða orðspori, mennti starfsfólk sitt almennilega og ráði úrvalsfólk til starfa sem gerir það að verkum að vinna lögreglunnar verður í þeim gæðaflokki að mikill meiri hluti borgaranna hér á landi líti lögregluna ákaflega jákvæðum augum, öfugt við það sem tíðkast mjög víða annars staðar og ekki síst í þeim þjóðfélögum þar sem yfirvöld hafa gefist upp gegn glæpastarfsemi. Í staðinn fyrir að viðurkenna uppgjöf sína fyrir glæpastarfseminni hafa yfirvöld keypt sér frið eða fjarvistarsönnun, „alibí“, með því að vopna lögregluna þannig að í þessum skelfilegu löndum gengur lögreglan um grá fyrir járnum og skilar engum árangri öðrum en þeim að vekja jafnmikinn ugg meðal borgaranna og glæpamennirnir gera sjálfir, ef ekki meiri.

Við fyrstu sýn virðist þetta frumvarp til laga frá innanríkisráðherra vera samið af hófsemi og skynsemi. Ég hlakka til að taka þátt í að fjalla um þessa lagasetningu, fyrst í allsherjarnefnd og síðan í þingsal.