140. löggjafarþing — 76. fundur,  21. mars 2012.

meðferð sakamála.

622. mál
[18:44]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka mjög góða og gagnlega umræðu sem fram hefur farið um þetta frumvarp nú síðdegis. Skiptar skoðanir eru um áherslur og ekkert óeðlilegt við það. Við erum að takast á við breytingar í lögum og mjög mikilvægt að við vöndum vel til verka. Mér þótti vænt um þá einkunnagjöf sem hv. þm. Þráinn Bertelsson gaf frumvarpinu, að það væri samið af hófsemi og varúð. Ég hygg að svo sé. Ég tók eftir varnaðarorðum hæstv. umhverfisráðherra sem hvatti til þess að varlega væri farið í sakirnar. Ég er algerlega sammála því, en einmitt þess vegna er frumvarpið það sem það er vegna þess að legið hefur verið yfir því til að gæta persónuverndar og mannréttinda til hins ýtrasta, jafnframt því sem opnað er á ríkari heimildir til að takast á við skipulagða glæpahópa. Auðvitað tekur allsherjarnefnd þetta nú til skoðunar, en ég hygg að hvað þetta snerti tali lagatextinn og greinargerðin algerlega fyrir sig. Það sem ég heyri hins vegar er að allsherjarnefnd eða fulltrúar úr henni margir hverjir vilja rýmka heimildirnar umfram það sem hér er gert. Þar hvet ég til þess að varlega verði farið í sakirnar.

Þær heimildir sem við erum að festa í lög, ef þetta frumvarp verður að lögum, eru ekki úr lausu lofti gripnar, heldur fram settar vegna þeirrar aukningar sem hefur orðið á starfsemi skipulagðra brotasamtaka á Íslandi. Sumir glæpahópanna eru tengdir alþjóðlegum glæpahringjum eða eru beinlínis hluti af þeim. Átök í undirheimum hafa harðnað og ofbeldi orðið sífellt grófara. Þetta dylst engum sem fylgist með fréttum á Íslandi í dag. Lögreglan hefur ítrekað bent á að heimildir hennar til eftirlits með skipulögðum brotasamtökum séu ekki nægilegar þrátt fyrir að ljóst megi vera hver tilgangur samtakanna er. Við þessu er brugðist með því frumvarpi sem ég mæli hér fyrir. En auknar valdheimildir lögreglu geta aldrei verið ræddar óháð mannréttindum og löggjafanum ber að stíga varlega til jarðar eins og ég gat um í upphafi máls míns. Um valdheimildir og notkun þeirra þarf að ríkja samfélagslegt traust. Þess vegna er mikilvægt að við höldum hópinn. Þótt einhverjir vilji ganga lengra í þessum efnum hvet ég til varfærni og við förum varlega í sakirnar hvað þetta snertir.

Við höfum orðið vitni að því sem gerist þegar samfélagslegt traust er rofið, þegar eftirlit yfirvalda teygir sig inn í grasrótarhópa eða pólitísk samtök. Ég gæti rifjað upp kaldastríðstímann, en ég þarf ekki að leita svo langt aftur. Staðfest hefur verið að þegar umhverfisverndarsinnar mótmæltu stíflugerð á Kárahnjúkum var erlendur flugumaður sendur þeirra á meðal. Því hefur verið haldið fram að sá lögreglumaður hafi brotið lög og reglur í starfi sínu hér og víða um Evrópu — staðfest víða um Evrópu — en það breytir ekki því að hann dvaldi meðal mótmælenda og safnaði um þá upplýsingum. Það sem meira er, hann hvatti til lögbrota og tók sums staðar þátt í að fremja þau. Flugumaðurinn gat starfað á Kárahnjúkum vegna þess að afar óskýrar reglur giltu um rannsóknaraðferðir lögreglu. Löggjöfin var fjarri nógu traust, en auk hennar voru í gildi nokkrar reglugerðir sem aldrei komu fyrir almannasjónir. Þessu hefur nú verið breytt.

Fyrir rúmu ári síðan var sett ný reglugerð um sérstakar rannsóknaraðferðir og rannsóknaraðgerðir lögreglu. Með þeirri reglugerð er tekið fyrir hvers konar forvirkar lögreglurannsóknir á grasrótarhópum eða pólítískum samtökum. Þannig má nefna að ekki væri heimild fyrir flugumann að starfa á Kárahnjúkum í dag. Í reglugerðinni var jafnframt horfið frá skírskotun til almanna- og einkahagsmuna, en heimildir skýrðar betur og afmarkaðar við tiltekin brot. Ég tel að sambærilega breytingu þurfi að gera á sakamálalögum frá árinu 2008 og hef þegar falið réttarfarsnefnd að vinna tillögur að lagabreytingum þess efnis.

Sem fyrr segir verða rannsóknarheimildir lögreglu að vera vel afmarkaðar og skýrar. Þessi skoðun er ekki aðeins þess sem hér stendur, hún er einnig rík innan lögreglunnar þar sem kallað er eftir sem skýrustum heimildum. En á sama tíma og ég legg áherslu á þetta sem mannréttindaráðherra get ég sem ráðherra lögreglumála ekki setið hjá með hendur í skauti þegar lögregla sýnir fram á harðnandi veruleika skipulagðrar glæpastarfsemi og kallar eftir auknum heimildum. Þetta ákall tek ég alvarlega.

Frumvarp það sem hér er til umræðu rýmkar rannsóknarheimildir lögreglu en aðeins í þeim tilfellum þegar rannsókn beinist að starfsemi skipulagðra brotasamtaka. Ég hef orðið var við að margir telja að grasrótarsamtök megi hæglega flokka sem skipulögð brotasamtök og tel því rétt að undirstrika sérstaklega að svo er ekki. Skipulögð brotasamtök fremja glæpi sína í ávinningsskyni og þau eru skýrt skilgreind í lögunum. Þær heimildir sem hér er verið að opna á með þessum lagabreytingum hafa skýra skírskotun og tilvísan í tiltekna lagagrein.

Þess vegna eru rannsóknarheimildir þær sem hér eru lagðar til miðaðar við þann veruleika sem þær eiga að ná utan um, þ.e. skipulagða glæpastarfsemi. Ég teldi mikið óráð að leiða í lög rúmar heimildir sem ekki væru afmarkaðar við hina raunverulegu ógn, heldur allt aðra þætti. Í þeim efnum tel ég að Norðurlöndin hafi stigið óvarlega til jarðar en þau reka nú umfangsmiklar leyniþjónustur þar sem kröftunum er dreift víða. Þá leið tel ég ekki skynsamlega heldur eigi að styrkja lögreglu til að takast á við þá glæpi sem ógna samfélagi okkar í dag. Þar sem heimildir þessar eru rýmri en almennt er kveðið á um í lögum er nauðsynlegt að eftirlit með beitingu þeirra verði sem styrkast.

Það er mikilvægt að þetta frumvarp fái góða umfjöllun í allsherjarnefnd þingsins, en ég tel að tillagan um lagabreytinguna sjálfa og greinargerðin með frumvarpinu séu mjög skýrar. Ég hef grun um að umfjöllun allsherjarnefndar muni ekki síður snúast um hitt, hvort rýmka eigi þessar heimildir umfram það sem hér er lagt til. Ég hvet til varfærni í þeim efnum. Við skulum reyna að halda hópinn. Mynduð hefur verið þverpólitísk samstaða um að taka sameiginlega á vaxandi glæpastarfsemi á Íslandi. Samfélagið má vera í öruggri trú um að á þessum málum er verið að taka af festu og við sjáum árangur af starfi okkar.