140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

uppbygging orkufreks iðnaðar.

[13:37]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Ég vil spyrja hæstv. iðnaðarráðherra að því hvers er að vænta í uppbyggingu iðnaðar á Íslandi á þessu ári og eftir atvikum á því næsta. Allt frá því að gerður var stöðugleikasáttmáli á árinu 2009 hefur mjög verið horft til uppbyggingar á orkufrekum iðnaði til að fjölga störfum og skapa ný verðmæti fyrir þjóðfélagið. Það hefur orðið mikill dráttur á því að þau verkefni sem einkum hefur verið horft til hafi komist á laggirnar. Þar er skemmst að minnast verkefna eins og Helguvíkur, eins og uppbyggingar á Bakka fyrir norðan og fleira gæti ég tínt til. Kísilver í Helguvík virðist sömuleiðis vera í ákveðnu uppnámi. Af þessum sökum og þar sem mjög hefur dregist að koma inn í þingið með rammaáætlun sem skýrir línur um það hvaða virkjunarkostir eru á borðinu þá hafa þessi mál smám saman verið hulin mikilli óvissu, þoku, hvað framtíðina snertir.

Þess vegna tel ég fullt tilefni til að bera það undir hæstv. iðnaðarráðherra hvað hún sér fyrir sér á næstu missirum hvað möguleika til sköpunar nýrra starfa á þessu sviði snertir. Í því sambandi væri ekki verra ef fram kæmi hjá ráðherranum hvaða virkjunarkostir kæmu þá einkum að hennar áliti til greina til að hrinda slíkum verkefnum af stað.