140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

uppbygging orkufreks iðnaðar.

[13:41]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Eins og heyra má á hæstv. ráðherra er ekkert í hendi varðandi uppbyggingu á orkufrekum iðnaði í landinu. Það virðist vera að meira og minna öll verkefnin sem hafa verið í umræðunni séu ýmist stopp eða hafi verið slegin af.

Fyrrverandi iðnaðarráðherra bað menn fyrir norðaustan að undirbúa sig undir stórfellda atvinnuuppbyggingu á svæðinu fyrir skömmu síðan. Enn bólar ekkert á raunhæfum verkefnum sem gefa tilefni til að hefja slíkan undirbúning. Það er vissulega til staðar mikil orka en það virðist ekki hafa verið raunverulegur vilji til staðar hjá stjórnvöldum og áhugi sem lýsir sér í eftirfylgni og stuðningi við þær hugmyndir sem hafa verið nefndar.

Ég lýsi aftur yfir miklum vonbrigðum með að rammaáætlunin skuli ekki enn komin fram og vil bera það undir ráðherrann (Forseti hringir.) hvort það geti virkilega verið að eina virkjunin í vatnsafli verði Hvalárvirkjun sem verði þar í nýtingarflokki. Kemur það virkilega til greina að ganga þannig frá rammaáætluninni að eina virkjunin í (Forseti hringir.) nýtingarflokki verði Hvalárvirkjun?