140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

uppbygging orkufreks iðnaðar.

[13:42]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil fyrst fara yfir stöðu mála á norðaustursvæðinu en hv. þingmaður ýjar að því að stjórnvöld styðji ekki við uppbyggingu á því svæði sem er alrangt. Landsvirkjun gekk frá samningum um ráðgjafarþjónustu vegna útboðs og lokahönnunar Bjarnarflagsvirkjunar og Þeistareykjavirkjunar í október 2011. Fyrirhugað er að bjóða út vél- og rafbúnað um mitt árið 2012 og markmið Landsvirkjunar er að gangsetja Bjarnarflagsvirkjun um mitt ár 2015 og Þeistareykjavirkjun síðla sama ár. Nokkrir aðilar hafa sýnt orku frá norðaustursvæðinu áhuga með staðsetningu á Bakka í huga en það eru allt saman minni verksmiðjur en álvershugmyndir gerðu ráð fyrir til að byrja með og það getur líka verið betra á háhitasvæði og heppilegra að vera með minni kaupendur að jarðvarmavirkjunum. En kostnaður vegna innviða, svo sem hafnarmannvirki, línulagnir og vegir, vegur þá hlutfallslega þyngra ef við erum með minni verkefni undir.