140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

fjárfestingar erlendra aðila og auðlindagjald í orkugeiranum.

[13:48]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég skildi hvorki upp né niður í þessu svari hæstv. ráðherra um klassíska auðlindaskatta. Ég var ekki að spyrja um það. Ég spurði hæstv. ráðherra hvort ráðherrann teldi eðlilegt að leggja sams konar auðlindagjald á orkugeirann. Er ekki eðlilegt að Orkuveita Reykjavíkur greiði til dæmis sama auðlindagjald og sjávarútvegurinn á að greiða þar sem verið er að nýta náttúruauðlindir?

Mig langar líka að koma því að við hæstv. ráðherra að auðvitað hefur ályktun Evrópuþingsins sem slík ekkert vægi á Íslandi. Hún gildir ekki fyrir Ísland. En í ályktuninni eru íslensk stjórnvöld hins vegar hvött til að hraða því að opna fyrir fjárfestingar erlendra aðila í orkugeiranum, í sjávarútvegi o.fl. og það tengist viðræðunum um aðild að Evrópusambandinu. Ég spyr því hæstv. ráðherra enn og aftur: Telur hæstv. ráðherra koma til greina að opna fyrir fjárfestingar útlendinga í sjávarútvegi og í orkugeiranum? Í öðru lagi: Er (Forseti hringir.) ekki eðlilegt að Orkuveita Reykjavíkur og Landsvirkjun og þau orkufyrirtæki sem nýta auðlindir hér á landi greiði sams konar gjald og sjávarútvegurinn?