140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

afleiðingar veiðileyfagjalds.

[13:51]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Fyrir liggur að ríkissjóður ætlar að taka um 30 milljarða kr. út úr sjávarútveginum miðað við þær forsendur sem lagt er upp með í þeim frumvörpum sem dreift var hér undir miðnættið í gærkvöldi. 30 milljarðar kr. svara til um 50% af heildarframlegð sjávarútvegsins í landinu, sem þýðir að þeir sem eru skuldugri munu ekki geta staðið undir skuldum sínum.

Ég sé það í þeim plöggum sem fyrir okkur hafa verið lögð að ekki virðast koma fram neinar upplýsingar, að minnsta kosti ekki í þeim, um að reynt hafi verið að meta hverjar afleiðingarnar yrðu, hvaða afleiðingar þetta hefði í för með sér fyrir fyrirtækin, fyrir einstök byggðarlög og til dæmis fyrir fjármálastofnanirnar í landinu sem standa þá frammi fyrir því að ýmis fyrirtæki ráða ekki við þessar nýju skuldbindingar upp á 30 milljarða kr. sem rætt er um í þessum frumvörpum. Hæstv. ráðherra telur að 50% sem fara eiga í þetta af heildarframlegðinni sé bara eðlileg skattheimta, eins og hún sagði áðan. Þá vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Væri ekki eðlilegt að hafa sambærilega skattlagningu á alla þá sem nýta sameiginlegar auðlindir og skila þannig arðinum til þjóðarinnar?

Nú er að koma ársuppgjör fyrir Orkuveitu Reykjavíkur, heildarframlegð þess fyrirtækis er 21 milljarður kr. Með sömu útreikningsaðferð ætti það fyrirtæki, ef hæstv. fjármálaráðherra mun fylgja eftir þeim hugleiðingum sem hún lýsti áðan, að greiða 10–12 milljarða kr., þá væntanlega til þjóðarinnar eða hvernig sem það er hugsað. Voru afleiðingarnar ekki skoðaðar í heild sinni (Forseti hringir.) af þeirri ofsaskattheimtu sem nú er verið að boða á byggðirnar, á einstaka útgerðarflokka, á sjávarútveginn í heild, á fjármálastofnanirnar og hvernig þessi mál munu líta út eftir fáein ár?