140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

afleiðingar veiðileyfagjalds.

[13:55]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hæstv. ráðherra, þessi mál hafa verið skoðuð áður. Og hvað hafa þær athuganir leitt í ljós? Þær leiða það í ljós að þetta frumvarp mundi hafa mjög alvarleg áhrif víða í sjávarútvegi, eins og meðal annars kemur fram í greinargerð Daða Más Kristóferssonar sem þó var ekki samin fyrr en eftir að hæstv. ríkisstjórn hafði ákveðið hvernig hún ætlaði að láta frumvarpið líta út, alveg eins og í fyrra, þá var frumvarpið lagt fram og svo voru afleiðingarnar skoðaðar.

Í öðru lagi sagði hæstv. ráðherra að fylgjast þyrfti sérstaklega með skuldugum fyrirtækjum, en þau fyrirtæki sem hér um ræðir eru ekki síst þau sem eru með nýjustu fjárfestingarnar. Nýliðarnir sem hæstv. ríkisstjórn segist nú bera svo mjög fyrir brjósti munu auðvitað falla fyrst. Þá segir ríkisstjórnin: Við eigum önnur úrræði til að auðvelda nýliðum að komast inn í sjávarútveginn. Hvað þýðir það? Nýliðunarstefna ríkisstjórnarinnar varðandi sjávarútveginn er bara að skipta um nýliða í sjávarútveginum, láta þá falla sem eru nýjastir í greininni og setja síðan eitthvert annað fólk inn í staðinn. (Forseti hringir.) Það er hins vegar misskilningur, hæstv. ráðherra, að stóru fyrirtækin ráði almennt við þetta, 50% skattlagning á framlegð er mjög mörgum fyrirtækjum algjörlega ofviða.