140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

afleiðingar veiðileyfagjalds.

[13:57]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Samkvæmt upplýsingum um afkomu fyrirtækja í sjávarútvegi er ekki hægt að fallast á að það sé misskilningur hjá þeirri sem hér stendur að fyrirtækin ráði við þessa gjaldtöku. Reikna má með því að þetta gjald skili um 18–20 milljörðum í ríkissjóð ef miðað er við útreikning Hagstofunnar á uppgjörum fyrirtækja á árinu 2010. Það er þá um 11–13 milljarða aukning frá þeim rúmum 7 milljörðum sem ráðgerðir voru. Síðan gæti það hafa hækkað á árinu 2011 og í ár vegna góðra aflabragða.

Gjaldið er næmt fyrir afkomu í greininni og því er líklegt að það skili litlu eða engu ef illa árar en skili góðu þegar vel árar. Um leið er þetta hagstætt fyrir ríkissjóð vegna þess að þegar fyrirtækin skila miklu er krónan veik, þegar þau skila (Forseti hringir.) minna er krónan sterk þannig að þetta verður sveiflujöfnun á ríkissjóð sem er ákaflega hagstætt fyrir þjónustu þeirra sem þurfa á ríkissjóði að halda.