140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

framtíð Garðyrkjuskólans á Reykjum í Ölfusi.

[14:00]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég fagna því að fá spurningu í óundirbúnum fyrirspurnatíma. Ég sá að ég mundi fá mikil tækifæri hér þegar hvorugur formaður stjórnarflokkanna væri á staðnum og nú hef ég fengið mitt tækifæri.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Ég get tekið undir áhyggjur hans af stöðu Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri. Það er auðvitað stærra mál en svo að það eigi bara við um Reyki í Hveragerði. Eins og kunnugt er og hv. þingmaður nefndi rekur skólinn starfsemi á þremur stöðum, þ.e. á Hvanneyri, í Reykjavík og síðan í Hveragerði. Heilmikil uppbygging hefur átt sér stað, bæði á Hvanneyri og í Hveragerði. Eins og hv. þingmaður nefndi hefur verið lögð vinna og fjármunir í að fjárfesta í gróðurhúsum á því svæði fyrir utan að það liggur auðvitað sérlega vel við, getum við sagt, til garðyrkjunáms frá náttúrunnar hendi.

Hins vegar er staða Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri alvarleg. Ég mun ræða hana á fundi hv. allsherjar- og menntamálanefndar í þessari viku. Þar kemur margt til, m.a. uppsafnaður halli frá því að skólinn var færður frá landbúnaðarráðuneyti til menntamálaráðuneytis á sínum tíma, halli sem ekki hefur tekist að vinna á. Mikið hefur verið unnið í því að koma rekstrinum í viðunandi horf innan árs en þó má segja að við sjáum þar ákveðnar blikur á lofti með síðasta ár, um hvernig rekstrarstaða þess árs kemur út. Það veldur mér þungum áhyggjum þegar við horfum til þess þannig að við þurfum að ræða þetta í því samhengi að staða skólans er þung.

Mitt fyrsta mat við fyrirspurn hv. þingmanns er að það hefur verið lögð bæði vinna, tími og peningar í að byggja upp á Reykjum. Þar er aðstaða góð frá náttúrunnar hendi þannig að ég sé það ekki endilega sem neina lausn á fjárhagsstöðunni að loka aðstöðunni þar. Ég ítreka að öflugt nám á sviði garðyrkju sem skiptir okkur gríðarlegu máli hér, ekki bara upp á matvælaöryggi að gera heldur líka nýsköpun í matvælaframleiðslu, er (Forseti hringir.) auðvitað lykilatriði.