140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

skattlagning neikvæðra vaxta.

[14:07]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Það hljómar ekki fallega sem hv. þingmaður talar hér um, að verið sé að skattleggja neikvæðar tekjur, að raunvextirnir hafi alltaf verið neikvæðir og sparnaður heimilanna sé að brenna upp.

Það er samt þannig hvað fjármagnstekjurnar varðar að það er ákveðið frítekjumark sem er ágætt og dugar fyrir allan venjulegan sparnað heimilanna. Af slíkum sparnaði er ekki greiddur hár fjármagnstekjuskattur. Þegar við erum að ræða þessi mál og fara yfir þau finnst mér mikilvægt að venjulegur heimilissparnaður — hv. þingmaður man kannski betur en ég hvaða fjárhæð er þarna miðað við en það er að minnsta kosti ágætissparnaður sem er ekki skattlagður. Þegar upp er staðið eru það þeir sem eiga háar upphæðir sem borga fjármagnstekjuskattinn og vextina en ekki sparnaður heimilanna eins og hv. þingmaður nefndi áðan.