140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:15]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf):

Forseti. Með þingsályktun sem samþykkt var 28. febrúar sl. ákvað Alþingi að stjórnlagaráð yrði kallað saman á ný til fjögurra daga fundar til að fjalla um spurningar og tillögur stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að hugsanlegum breytingum á frumvarpi stjórnlagaráðsins til stjórnarskipunarlaga sem afhent var forseta Alþingis 29. júlí 2011.

Fundur stjórnlagaráðs var haldinn í Reykjavík 11. mars. Fundinn sóttu 21 af 25 fulltrúum. Fulltrúar í stjórnlagaráði tóku afstöðu til spurninga og álitaefna sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hafði beint til þeirra. Svörum var skilað 12. mars og fulltrúar úr stjórnlagaráði mættu síðan á fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og fóru yfir svörin.

Ályktun Alþingis frá 22. febrúar gerði jafnframt ráð fyrir að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd skyldi gera tillögu til Alþingis um að tillögurnar í heild með breytingartillögum stjórnlagaráðs ef við ætti yrðu bornar upp í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Enn fremur yrðu samhliða bornar upp spurningar sem lytu að helstu álitaefnum. Þá samþykkti Alþingi með framangreindri ályktun að tillaga þess efnis skyldi koma til atkvæðagreiðslu á Alþingi til samþykktar eða synjunar eigi síðar en 29. mars en þá rennur út sá frestur sem Alþingi hefur, samkvæmt lögum nr. 91/2010, um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu, til að ákveða að þjóðaratkvæðagreiðslan fari fram samhliða forsetakosningum 30. júní.

Í ályktuninni var einnig kveðið á um að Alþingi skuli standa fyrir víðtækri kynningu á efni þeirra tillagna og spurninga sem bornar verða upp í þjóðaratkvæðagreiðslu, enda er kveðið á um það í 6. gr. laga um þjóðaratkvæðagreiðslur. Það er auðvitað mjög mikilvægt að vandað verði til kynningarinnar og hún takist vel í ljósi þess að um er að ræða tillögur og spurningar er varða grundvallarlög þjóðarinnar.

Meginspurning í þjóðaratkvæðagreiðslunni er um hvort leggja eigi tillögur stjórnlagaráðs til grundvallar við samningu frumvarps um breytingu á stjórnarskipunarlögum sem lagt yrði fyrir Alþingi á næsta þingi. Um frumvarp það sem lagt verður fram verður síðan fjallað í þinginu í þremur umræðum eins og lög gera ráð fyrir.

Í gagnrýni á tillögu stjórnlagaráðs hefur því gjarnan verið haldið á lofti að þar séu einhverjar mótsagnir og ósamræmi sé á milli orðanotkunar í tillögum ráðsins og alþjóðasamninga og á þetta sérstaklega við um ákvæði í mannréttindakaflanum. Til að taka af öll tvímæli í þeim efnum er því tekið fram í spurningunni að tillögurnar verði yfirfarnar með tilliti til þessa áður en frumvarp verður lagt fyrir Alþingi.

Spurningarnar fimm sem lagt er til að þjóðin segi álit sitt á eru allar um meginatriði sem tillögur stjórnlagaráðs taka til, atriði sem fólk hefur sterkar en einnig ólíkar skoðanir á. Þess vegna er tilvalið að bera það undir þjóðina í ráðgefandi atkvæðagreiðslu svo að þeir sem eiga að fjalla um nýja stjórnarskrá í síðasta áfanga langs og ítarlegs samráðs fái milliliðalausa leiðsögn um hver sé vilji landsmanna í þessum efnum.

Í fyrsta lagi, virðulegi forseti, er spurt um hvort stjórnarskráin eigi að heimila að náttúruauðlindir séu lýstar þjóðareign. Deilur hafa lengi staðið í landinu um eignarhald á fiskinum í sjónum og vísar þessi spurning fyrst og fremst til þess hvort stjórnarskráin eigi að taka af allan vafa þar um og þá um leið að arður af nýtingu auðlindarinnar eigi að renna til þjóðarinnar. Mér finnst óþarft að taka fram að þegar kemur að öðrum auðlindum okkar þá er átt við auðlindir sem ekki eru í einkaeign. En ég tek það samt skýrt fram svo að á því leiki enginn vafi, enda er þetta atriði líka alveg skýrt í tillögum stjórnlagaráðs.

Í öðru lagi er spurt um hvort ákvæði um þjóðkirkju í stjórnarskránni eigi að vera óbreytt í nýrri stjórnarskrá. Í tillögu stjórnlagaráðs er ekkert ákvæði um þjóðkirkjuna. Í 19. gr. tillagnanna er hins vegar kveðið á um kirkjuskipan og þar segir að í lögum megi kveða á um hana. Ef Alþingi samþykkir breytingu á kirkjuskipan ríkisins skal leggja það undir atkvæði kosningarbærra manna.

Virðulegi forseti. Engin almenn umræða hefur verið í landinu um þjóðkirkjuna og því þykir eðlilegt að taka af vafa um hver hugur kjósenda er til þess hvort þjóðkirkjan eigi að skipa þann sess í stjórnarskránni sem hún gerir nú.

Í þriðja lagi er spurt um hvort heimila eigi persónukjör í meira mæli en nú er í kosningum til Alþingis. Kjósendur hafa vissulega tækifæri til að breyta listum sem lagðir eru fram í kosningum samkvæmt núverandi kosningalögum. Áhrif kjósandans í kjörklefanum eru hins vegar mjög lítil.

Í tillögum stjórnlagaráðs er gert ráð fyrir að kjósandi geti valið frambjóðendur með persónukjöri auk listakjörs í kosningum til Alþingis. Ljóst er af skýringum stjórnlagaráðs að hægt væri að auka áhrif kjósandans í kjörklefanum að miklum mun. Rétt þykir að kanna hug kjósenda til þessa atriðis.

Í fjórða lagi er spurt um hvort atkvæði kjósenda alls staðar af landinu eigi að vega jafnt. Í stjórnarskránni er gert ráð fyrir því að vægi geti verið 1:2,5 áður en kjördæmamörk breytast. Í spurningunni um hvort atkvæði alls staðar af landinu eigi að vega jafnt felst ekki að landið verði eitt kjördæmi heldur einfaldlega það sem er orðanna hljóðan. Sjálfri þykja mér það mannréttindi að öll atkvæði vegi jafnt. Hitt veit ég að aðrir eru þeirrar skoðunar að atkvæði hinna dreifðu byggða eigi að vega þyngra en okkar sem búum á höfuðborgarsvæðinu. Ekki er ólíklegt að álykta megi að einmitt þetta atriði hafi orðið þess valdandi að hægt hafi gengið að bera breytingar á stjórnarskránni á Alþingi. Það liggur því í augum uppi að spyrja þessarar spurningar.

Í fimmta og síðasta lagi er spurt hvort kjósendur telji að tiltekinn fjöldi kosningarbærra manna eigi að geta krafist bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekið málefni. Þetta er nýmæli í stjórnarskrá og því er í fyrsta lagi spurt hvort kjósendur vilji hafa þennan rétt og vilji þeir það þá hve stór hluti kosningarbærra manna þeir telji að eigi að geta kallað eftir atkvæðagreiðslum.

Nú verður, virðulegi forseti, að hafa í huga að hér er um fyrri umræðu þingsályktunartillögunnar að ræða. Málið á eftir að koma aftur inn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Í umfjöllun nefndarinnar gætu vissulega orðið einhverjar breytingar á orðalagi spurninganna sem hér er lagt upp með og væri það vissulega skemmtileg tilbreyting ef minni hluti nefndarinnar væri tilbúinn að eiga viðræður við okkur hin um það.

Andstæðingar þessa samráðs sem lagt var upp í við endurskoðun stjórnarskrárinnar hafa við hvert tækifæri lýst því að við sem erum áhugamenn um þetta vinnulag vitum ekkert hvert við séum að fara, allt sé þetta fimbulfamb og tómt rugl.

Virðulegi forseti. Í tilefni af þeim yfirlýsingum vil ég segja þetta: Við vitum nákvæmlega hvað við erum að gera, rétt eins og þegar við lögðum til að stjórnlagaráðið yrði kallað saman til fundar. Sá fundur skilaði góðum árangri og sameiginlegur fundur stjórnlagaráðsins og meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar var sérstaklega ánægjulegur og árangursríkur og eyddi, að því er ég tel, tortryggni milli þeirra og okkar. Verst var að minni hluti þingnefndarinnar taldi sig ekki eiga erindi á þann fund.

Nú leggjum við til að tillögur stjórnlagaráðsins verði bornar í heild undir þjóðaratkvæði. Það er gert vegna þess að það er samræmi í tillögunum frá upphafi til enda. Í tillögunum er heildstæð hugsun frá upphafi til enda að nútímalegri stjórnarskrá og við leggjum til að fólk fái tækifæri til að segja hug sinn um hana. Síðan verður á grunni þess samið frumvarp til stjórnarskipunarlaga sem lagt verður fyrir Alþingi og við munum ræða í þrem umræðum eins og lög gera ráð fyrir. Ég get ekki séð að það verði verra fyrir okkur í þeirri umræðu að hafa í handraðanum þær upplýsingar sem unnt verður að lesa út úr niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslunnar.