140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:28]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst koma inn á það sem hv. þingmaður sagði í fyrra andsvari um hvernig ætti að gera stjórnarskrá. Um það eru tveir skólar. Sumir segja að hún eigi að vera stutt og bara fjölmiðlar skuli vera frjálsir. Aðrir eru þeirrar skoðunar að þær eigi að vera ítarlegri. Þetta er sá skóli. Það er oft þannig í heiminum.

Þá vil ég tala um stjórnarskrána. Það er ekki verið að tala um að stjórnlagaráðið leggi fyrir frumvarp. Það er verið að tala um að þingmenn — þingnefnd hugsanlega, ég veit ekki hver — leggi fram frumvarp, kannski verður það forsætisráðherrann, kannski verður það stjórnskipunar- og eftirlitsnefndin. Mér finnst það ekki skipta meginmáli. Það er verið að spyrja um það hvort það frumvarp eigi að vera byggt á þessum tillögum sem 25 manns hafa komið sér saman um eftir að það fólk var valið, þjóðkjörið í atkvæðagreiðslu. 80 þúsund manns tóku þátt í þeirri atkvæðagreiðslu þannig að hér er ekki verið að brjóta stjórnarskrá. Og ég vil segja það, vegna þess að þingmanninum er svo annt um stjórnarskrána og hefur sagt það mjög oft: Það er mér líka.