140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:30]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka fyrir þessa framsögu málsins og bera undir hv. framsögumann nokkrar spurningar.

Varðandi fyrstu spurninguna verð ég að segja að mér finnst augljóst að það verður mjög erfitt að fá einhlíta niðurstöðu úr þessari atkvæðagreiðslu. Meiri hluti kjósenda vill kannski fá fram frumvarp sem byggir á tillögum stjórnlagaráðs, þó með þeim breytingum sem þarna er talað um, en kallar síðan eftir breytingum í samræmi við þær spurningar sem fylgja á eftir. Ég nefni sem dæmi: Hvað er átt við með fyrstu spurningunni um að náttúruauðlindir skuli lýstar þjóðareign? Er það rétt sem ég heyrði hjá framsögumanni að í því felist þá líka að það sé búið að taka afstöðu til þess hvert arðurinn af nýtingu þeirra eigi að renna?

Á þeim skamma tíma sem ég hef verð ég að vekja athygli á 79. gr. stjórnarskrárinnar þar sem fjallað er um kirkjuskipun ríkisins. Þar segir í dag að ekki sé hægt að gera breytingar á kirkjuskipun ríkisins án þess að um það (Forseti hringir.) fari fram sérstök þjóðaratkvæðagreiðsla. Það kallar á spurninguna: Hvers vegna er verið að bera þetta undir þjóðina? (Forseti hringir.) Hvaða tilgangi þjónar það þegar það liggur hvort eð er fyrir samkvæmt stjórnarskrá að það verður alltaf gert?