140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:44]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Þegar sett voru á Íslandi lög um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna var það í fyrsta sinn sem slíku var komið fyrir í lögum og gerðist það ekki fyrr en á 138. löggjafarþingi sem starfaði frá 2009 til 2010. Þar var ákveðið að koma ramma utan um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna sem er verið að vinna eftir í dag og þessi tillaga til þingsályktunar byggir í raun á þeim lögum. Þegar lesin er greinargerðin með því frumvarpi sem þá var lagt fram fæst mjög gott yfirlit yfir tilgang með þjóðaratkvæðagreiðslum almennt, í hvaða tilvikum menn sáu fyrir sér að bera spurningar undir þjóðina og í frumvarpinu er jafnframt að finna mjög gott yfirlit yfir það hvernig þessum málum hefur verið hagað hjá nágrannaþjóðum okkar og víðar. Hér er þess fyrst að geta að í 2. kafla greinargerðarinnar segir, með leyfi forseta:

„Íslensk stjórnskipun byggist á fulltrúalýðræði sem gerir ráð fyrir því að fulltrúum kjörnum af þjóðinni sé veitt umboð til þess að setja lög og taka mikilvægar ákvarðanir sem varða almannahag. Markmið þjóðaratkvæðagreiðslu er að veita hinum almenna borgara kost á að taka milliliðalaust þátt í ákvörðunartöku um lagasetningu eða eftir atvikum um tiltekin málefni í stað þess að ákvörðun sé tekin af þjóðkjörnum fulltrúum eins og almennt á við þar sem fulltrúalýðræði ríkir.“

Eins og sjá má af þessum inngangsorðum var það ávallt hugmyndin með lögum um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna að opna fyrir þátttöku almennings við að taka ákvarðanir um mál. Ég tel að sú tillaga til þingsályktunar sem hér liggur frammi uppfylli ekki þetta grundvallarskilyrði enda er það svo, þegar við lesum áfram í frumvarpi til þessara laga um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna, að við finnum engin dæmi um viðlíka spurningar hjá öðrum þjóðum sem við höfum horft til — og lögin voru samin með hliðsjón af þeim reglum og þeirri framkvæmd sem þar hefur verið viðhöfð. Við finnum engin dæmi um viðlíka spurningar sem fram hafa komið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þar hefur ávallt verið við það miðað að þjóðaratkvæðagreiðslan mundi leiða eitthvert tiltekið álitamál til lykta, ekki ávallt þó þannig að það verði bindandi fyrir stjórnvöld á hverjum tíma, vegna þess að víða hefur verið gert ráð fyrir ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslum, en þó þannig að þegar þjóðaratkvæðagreiðslan hefði farið fram hefði einhverju tilteknu álitamáli verið ráðið til lykta. Þannig var það til dæmis í Danmörku þar sem fjórum sinnum hafa farið fram þjóðaratkvæðagreiðslur um framsal ríkisvalds á grundvelli stjórnarskrárinnar. Einu sinni var þar framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðsla að kröfu nægjanlegs hlutfalls þingsins og þar hafa einnig farið fram nokkrar þjóðaratkvæðagreiðslur án þess þó að það hafi verið byggt á þessum fyrrgreindu lagaheimildum. Danir hafa til dæmis kosið um það hvort taka ætti upp evru, þá fæst svar af eða á. Hvort menn eigi að samþykkja Maastricht-sáttmálann, af eða á. Í Noregi hafa verið framkvæmdar þjóðaratkvæðagreiðslur, þær hafa í hvert og eitt sinn ráðið ákveðnum álitamálum til lykta. Þær hafa verið ráðgefandi vegna þess að ekki hefur verið gert ráð fyrir öðru þar en hinar fjórar ráðgefandi kosningar þar voru framkvæmdar 1919, 1926, 1972 og 1994 og fóru fram á grundvelli sérlaga.

Í Svíþjóð, eins og lesa má í þeirri greinargerð sem ég vísa hér til, hefur til dæmis verið kosið um áfengisbann, innleiðingu hægri umferðar, lífeyrismál, kjarnorkumál, aðild að Evrópusambandinu og upptöku evrunnar.

Hæstv. forseti. Þar sem ég hef skamman tíma ætla ég ekki að rekja öll þessi dæmi en af þessari greinargerð, sem er mjög læsileg og handhæg í þessari umræðu, má augljóslega sjá að engri þjóð hefur dottið í hug að leita til þjóðarinnar með svona opna skoðanakönnun eins og hér er lagt til.

En lítum aðeins á spurningarnar sérstaklega sem hér er lagt til að verði lagðar fyrir þjóðina. Það vekur að sjálfsögðu fyrst athygli að horfið hefur verið frá því sem hér hefur löngum verið rætt um í þinginu, allt frá því að hugmyndir um stjórnlagaþing og síðan stjórnlagaráð og síðan hið ráðgefandi stjórnlagaráð komu fram, að leggja tillögur stjórnlagaráðsins fyrir þjóðina. Það hefur verið horfið frá því og það vekur mikla athygli vegna þess að hér hefur verið gerður áskilnaður um að frumvarp sem mögulega verði samið á grundvelli tillagna stjórnlagaráðsins muni fyrst þurfa að taka breytingum. Því er alveg ósvarað í þessari umræðu og þeirri framsögu sem fram hefur farið, og í þeirri umræðu sem átt hefur sér stað í fjölmiðlum, hvers vegna þær breytingar sem meiri hluti nefndarinnar telur nauðsynlegar á frumvarpinu til að það geti talist tækt til framlagningar á Alþingi hafa ekki þegar verið gerðar. Og hverjar eru þær breytingar? Er ekki sjálfsagt að þjóðin fái einhverja hugmynd um það hverjar breytingar meiri hluti nefndarinnar telur nauðsynlegar til að þær væru þá tækar í sérstakt frumvarp?

Í annan stað þarf ég að ræða aðeins um spurningarnar í liðunum fimm sem koma fram undir 2. tölulið í tillögunni. Þar er fyrst að nefna náttúruauðlindir í þjóðareign. Það stendur til að spyrja:

„Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá Íslands verði

1. náttúruauðlindir lýstar þjóðareign?“

Ég tel að það sé enginn orðhengilsháttur að skilja þetta bara eins og það stendur í tillögunni. Þar sem engar náttúruauðlindir eru undanskildar í tillögunni hlýtur að vera við það átt að allar náttúruauðlindir séu lýstar þjóðareign. Ef það er svo að það séu einhverjar náttúruauðlindir sem ekki stendur til að gera að þjóðareign finnst mér að það ætti að undanskilja þær. Það hefur að jafnaði verið gert í þeim tillögum til breytinga á stjórnarskránni sem fram hafa komið á þingi. Það er til dæmis hægt að spyrja: Vilt þú að þær náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeign verði lýstar þjóðareign? Þetta er svona einfalt. Af hverju gera menn þetta ekki? Og hvernig stendur á því að menn eru að mótmæla þessum augljósa skilningi? Það er alveg ótrúlegt, það er eins og það þurfi að taka slag um jafnaugljósa hluti og þennan.

Ég hef hér stuttan tíma. Það á að spyrja:

„Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá Íslands verði

2. ákvæði um þjóðkirkju Íslendinga óbreytt frá því sem nú er?“

Þetta er óskiljanleg spurning í því samhengi að við getum ekki breytt þessu samkvæmt stjórnarskránni sjálfri án þess að um það fari fram sérstök þjóðaratkvæðagreiðsla. Ég spyr: Til hvers að vera að leggja þetta fyrir þjóðina ef það hefur ekki komið fram tillaga um það hér frá þinginu? Í 79. gr. er beinlínis gert ráð fyrir því að ef þessu á að breyta þurfi að fara fram um það sérstök þjóðaratkvæðagreiðsla. Ég er reyndar þeirrar skoðunar eins og málið blasir við mér, að minnsta kosti í dag og ég á eftir að skoða það betur, að mér sýnist þetta vera þannig að tillögur stjórnlagaráðsins ætli að skauta fram hjá þjóðaratkvæðagreiðslu um breytingar á kirkjuskipan. Mér sýnist að þjóðinni sé tryggð sérstök þjóðaratkvæðagreiðsla um þessar breytingar í stjórnarskránni eins og hún er í dag og menn komist ekki upp með það að koma bara með í heild sinni nýja stjórnarskrá og láta kjósa um hana alla saman í einum pakka og skauta þannig fram hjá þjóðaratkvæðagreiðslu um kirkjuskipanina sérstaklega. Þetta tel ég að þurfi að skoða alveg sérstaklega og fá umsagnir um það en svona blasir málið við mér á þessu stigi.

Vilja menn að persónukjör í kosningum til Alþingis verði heimilað í meira mæli en nú er? — Svarið við þessari spurningu segir okkur ekki neitt. Ég nefni sem dæmi hér að kjósandi sem mætir á kjörstað í þingkosningum í dag er algerlega óbundinn af þeim lista sem er lagður fyrir hann. Við getum tekið dæmi hér um lista frá mínum flokki í einhverju kjördæmi, það blasir við kjósanda listi yfir 22 þingmenn og hann þarf ekki að kjósa neinn umfram þann sem hann vill. Hann getur strikað yfir alla og skilið eftir einn. Það væri til dæmis hægt að túlka niðurstöðu í skoðanakönnun um þetta atriði, þar sem meiri hlutinn segði já við þessu, að það ætti að taka meira tillit til útstrikana. Það mundi duga til að mæta kröfu kjósenda. Eða er verið að tala um beint persónukjör? Er verið að tala um að falla frá listakosningum? Vandinn er sá að það fæst engin niðurstaða þó að menn spyrji þessarar spurningar. Við eigum eftir að taka umræðuna um þetta hér á þingi til að eitthvert vit sé í því að vera að bera þetta undir fólkið í landinu.

Svona mundi ég halda áfram ef ég hefði til þess tíma. Ákvæði um að atkvæði kjósenda alls staðar að af landinu vegi jafnt? Þetta er auðvitað ekki spurning um neitt annað en það hvort fækka eigi landsbyggðarþingmönnum sem reyndar kom ágætlega fram hjá framsögumanni hér fyrr. Mér finnst ótækt að þessi spurning sé opnuð án þess að það sé útskýrt (Forseti hringir.) hvað eigi þá að verða með kjördæmin. Hvað á að verða með kjördæmin ef menn mundu gera þá breytingu að hafa atkvæði alls staðar á landinu jöfn?

Síðasta spurningin sem fjallar um prósenturnar sem þurfa að vera til staðar (Forseti hringir.) til að fá þjóðaratkvæðagreiðslu — ja, ég spyr mig: Af hverju mega ekki 25% vera þarna líka?