140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:57]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst hafa borið nokkuð á því að einkum þeir þingmenn sem ávallt hafa greitt atkvæði gegn því að þjóðin fengi að segja álit sitt á frumvörpum frá þinginu á þessu kjörtímabili komi nú og saki okkur í Sjálfstæðisflokknum um að vilja ekki eiga samtal við þjóðina. Við lögðum til að þjóðin fengi að kjósa um báða Icesave-samningana og fengi að tjá hug sinn um Evrópusambandsaðildarviðræðurnar. En þeir sem helst styðja þetta mál voru á móti því allan tímann að það væri gert, þannig að mér finnst hlutunum dálítið snúið á hvolf.

Ég er hins vegar sammála því sem hv. þingmaður segir að við þurfum að fara að eiga efnislegt samtal um hverju breyta eigi í stjórnarskránni og hvernig. Því miður hafa þrjú ár meira eða minna farið forgörðum í þessu efni vegna þess að við höfum ekki enn rætt efnislega um málið í þinginu.

Eins og menn sjá af þeim spurningum sem hér er teflt fram er verið að opna fyrir það að meiri hluti nefndarinnar, eða meiri hluti þingsins eftir atvikum, leggi fram frumvarp á einhverjum tímapunkti sem byggi alfarið á tillögum stjórnlagaráðs með minni háttar breytingum. Ég er þeirrar skoðunar sjálfur að við hefðum átt að fara yfir stjórnarskrána eins og hún liggur fyrir, horfa til vinnu stjórnlagaráðsins. Það er rétt að við vildum þá frekar að haldinn væri þjóðfundur til að stytta starfstíma ráðsins og draga úr kostnaði í stað þess að vera með margra mánaða stjórnlagaþing eða stjórnlagaráð að störfum. Við töldum það líka skynsamlegt, fyrst tillögurnar áttu að koma frá stjórnlagaráði, að þá væri sett á fót sérfræðinganefnd, stjórnlaganefnd, til að undirbúa þingið og það reyndist vel. Það er því alveg rétt hjá hv. þingmanni að við höfum reynt að vera uppbyggileg í umræðunni um málið hingað til. En við söknum þess samt mjög að fá ekki að taka efnislega umræðu um málið, ekki í stjórnarskrárnefndinni, stjórnskipunarnefndinni eða hér í þingsal. Menn sjá það bara (Forseti hringir.) á umræðunni sem á sér stað hér, á þingmálinu sjálfu, að við erum ekki enn þá farin að ræða neinar tillögur í málinu.

Ætlar meiri hluti nefndarinnar að mæla með því að fólk greiði á einn veg (Forseti hringir.) eða annan í þessari atkvæðagreiðslu?