140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[15:11]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það er einstaklega athyglisverð umræða sem fór fram um þjóðkirkjuna. Það má hæglega skilja það svo að verið sé að leggja til að það eigi að kjósa um kirkjuskipun eða breytingar á henni ef sú tillaga er sú eina sem er bindandi í þessari atkvæðagreiðslu vegna þess að það stendur í 2. mgr. 79. gr. stjórnarskrárinnar að það verði að leggja undir þjóðaratkvæðagreiðslu ef á að breyta kirkjuskipun. Þetta verður að skoða í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.

Ég ætla að ítreka þau orð mín frá því fyrr í dag að vinnslan á þessu máli sýnir fullkomið þekkingarleysi á stjórnskipun landsins og því hvernig á að breyta stjórnarskrá. Stjórnskipunarvald þjóðarinnar verður ekki tekið af Alþingi og er hér um enn einn tafaleikinn að ræða hjá ríkisstjórninni og eins og flestir vita er það samspyrt ákveðnum stuðningi við ríkisstjórnina.

Það er þyngra en tárum taki að horfa upp á að verið sé að „víla og díla“ um sjálfa stjórnarskrána á Alþingi til þess eins að þessi verklausa ríkisstjórn haldi völdum. Sér í lagi finnst mér sorglegt að farið hafi verið fram á það í upphafi þingfundar að hér mætti vera næturfundur. Það er verið að reyna að breyta stjórnarskránni en þá skal það fara fram í skjóli nætur. Það er ekki í fyrsta sinn sem mikilvæg mál eru rædd í þinginu á næturnar en þetta er í takt við vinnubrögð þingsins.

Ég ætla að upplýsa að ég hef lagt fram breytingartillögu við þessa þingsályktunartillögu. Skrifstofustjóri Alþingis kom til mín áður en þingfundur hófst og benti mér á að ég mætti ekki ræða þá breytingartillögu. Þessu er ég algjörlega ósammála því að breytingartillaga mín um hvort halda eigi áfram með aðlögunarviðræðurnar við Evrópusambandið eða ekki liggur frammi í þinginu og er búin að fá þingskjalsnúmer. Ég veit ekki alveg á hvaða leið þingið er en þetta er kannski í takt við það sem við erum að horfa upp á. Ýmsir sem telja sig talsmenn þjóðarinnar eru hissa á að ekki sé borin meiri virðing fyrir Alþingi. Ef það á líka að taka málfrelsi úr þessum ræðustóli af þingmönnum er illa komið fyrir löggjafarsamkomunni.

Meiri hlutinn vill að þetta máli fari í gegn og meiri hlutinn ber að sjálfsögðu ábyrgð á því hvaða spurningar verða bornar upp í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu en ég ber ábyrgð á minni breytingartillögu og hún hefur beina skírskotun í þá þingsályktunartillögu sem var samþykkt á sumardögum 2009 þegar Alþingi ályktaði að fela ríkisstjórninni að leggja inn umsókn um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Breytingartillaga mín hljóðar svo, frú forseti, orðrétt:

„Breytingartillaga við tillögu til þingsályktunar um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga og tiltekin álitaefni þeim tengd.

Frá Vigdísi Hauksdóttur.

Við 3. mgr. bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Vilt þú að stjórnvöld dragi aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu til baka?“

Gefnir eru tveir möguleikar, já eða nei. Það er mjög skýrt sem kom fram á … (Forseti hringir.)

(Forseti (RR): Forseti beinir þeim tilmælum til hv. þingmanns að hann getur ekki mælt fyrir tillögu sinni að breytingu á þingsályktunartillögu þegar verið er að ræða þingsályktunartillögu við fyrri umr. Hv. þingmaður getur kynnt að breytingartillagan sé fyrirhuguð en getur ekki mælt fyrir henni við þessa umræðu. Það er alveg ljóst í þingsköpum.)

Virðulegi forseti. Nú hef ég þegar lesið upp breytingartillöguna þannig að hún er komin í þingtíðindi. Orð mín verða ekki tekin aftur, þessi breyting liggur fyrir og hefur fengið skjalsnúmer. Ég bendi einnig á það, virðulegi forseti, að þetta mál var á dagskrá í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fyrir helgi og nú í morgun en málið hafði samt ekki verið tekið fyrir í þinginu. Er það ekki sambærilegt brot á þingsköpum? (Forseti hringir.)

(Forseti (RR): Forseti ítrekar að hv. þingmaður getur ekki mælt fyrir breytingartillögu sinni (Gripið fram í.) við þá þingsályktunartillögu ... )

Þetta er breytingartillaga, frú forseti.

(Forseti (RR): ... sem hér liggur fyrir við fyrri umr. Það er skýrt samkvæmt þingsköpum.)

Það var ágætt að ég fékk þá þetta eftir að ég las upp breytingartillöguna. Ég geri athugasemd við það að málið er búið að vera í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd bæði fyrir helgi og í morgun án þess að hafa komið til fyrri umr. í þinginu. Er það, frú forseti, leyfilegt samkvæmt þingsköpum? Eins og allir vita voru afbrigði um þetta mál felld fyrir helgi en meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hélt samt áfram með málið eins og ekkert hefði í skorist. Er það leyfilegt samkvæmt þingsköpum, frú forseti?

(Forseti (RR): Virðulegur þingmaður. Nú mun forseti lesa 4. mgr. 45. gr. svo hér séu hlutir á hreinu. Hún hljóðar svo: „Síðari umræða fer eigi fram fyrr en einni nóttu eftir fyrri umræðu eða útbýtingu nefndarálits. Skal þá ræða tillögugreinar og breytingartillögur við þær. Þá er umræðu er lokið skal greiða atkvæði um hverja tillögugrein og breytingartillögur við þær og loks tillöguna í heild sinni. Séu engar breytingartillögur má þó bera tillöguna upp í heild.“ — Virðulegi þingmaður. Þetta er nokkuð skýrt.)

Já, þetta er nokkuð skýrt, frú forseti, ég tek undir það en eftir situr spurningin hvort stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hafi þá ekki farið fram úr sér með því að hafa málið á dagskrá nefndarinnar á fimmtudaginn og í morgun vegna þess að ekki var búið að taka það fyrir við fyrri umr. í þinginu og var hafnað af þingmönnum fyrir helgi vegna þess að afbrigðin voru felld. Það er það sem ég þarf að fá að vita vegna þess að hér á að gilda jafnræði á nefndasviði og í þingsal svo það sé sagt hér.

Ég hef nú þegar kynnt þessa breytingartillögu enda hefur hún fengið umfjöllun í fjölmiðlum. Skal engan undra það, en vegna þess að það er já- og nei-ákvæði í þeirri breytingartillögu langar mig líka til að benda á að í 1. málslið í þingsályktunartillögunni sem er hér til umræðu er liðurinn „Tek ekki afstöðu“. Það var gagnrýnt af landskjörstjórn í morgun að hafa þennan lið inni vegna þess að þjóðaratkvæðagreiðslur eiga að vera skýrar og hafa helst einungis já- og nei-möguleika. Það er ljóst að landskjörstjórn hefur gagnrýnt mjög þær tillögur sem hér liggja fyrir og á þeim forsendum eru einungis tveir svarmöguleikar í breytingartillögunni.

Vegna þess að þetta stendur svo í þingsköpum er einkennilegt að breytingartillögur skuli fá skjalsnúmer. En þetta mál er líka allt mjög einkennilega unnið enda sést á flýti þess að það þarf að klárast fyrir miðnætti á fimmtudag. Það er búið að ákveða að hugsanlegar forsetakosningar verði 30. júní og þetta mál á að verða fullrætt fyrir fimmtudagskvöld vegna þriggja mánaða ákvæðis í lögum um þjóðaratkvæðagreiðslur, þ.e. að sá tími líði frá samþykkt þingsályktunartillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu fram að þjóðaratkvæðagreiðslunni sjálfri.

Ég hvet meiri hlutann til að dusta enn frekar rykið af frumvarpi sem ég hef lagt fram um styttra tímamark í þjóðaratkvæðagreiðslum ef svo skyldi fara að engar forsetakosningar yrðu eða þá að þessi tími yrði ekki nægjanlegur. Það yrði að sjálfsögðu fullur sigur fyrir mig sem stjórnarandstöðuþingmann að það yrði afgreitt sem lög frá Alþingi vegna þess að við munum hvernig umræðan var um það á sínum tíma hjá meiri hlutanum á þinginu.

Formaður þessarar nefndar hefur boðað að málið fari til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á ný og hefur boðað miklar breytingar á þessum spurningum enda er þetta allt saman mjög óljóst. Það eru nú þegar farnar að berast áskoranir til nefndarinnar um að þessum spurningum sem hér eru til umræðu verði breytt, t.d. frá Landssamtökum landeigenda á Íslandi og Landssambandi veiðifélaga þar sem þau gagnrýna mjög að ekki skuli vera ákvæði sem á að kjósa um í samræmi við gildandi lög og stjórnarskrá. Það er alveg ófært að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þurfi að fá ályktanir utan úr bæ frá aðilum þar sem nefndin er beinlínis hvött til að fara eftir lögum og alþjóðasamningum. Það er svo mikið hneyksli hvernig komið er fyrir Alþingi og hvernig meiri hlutinn vinnur í þessu máli. Ég hef í allan vetur reynt að koma vitinu fyrir meiri hlutann varðandi allt þetta mál en það er alltaf fundinn upp nýr og nýr tafaleikur. Það er farið að reyna á þolrifin varðandi þetta mál. Ég lýsi fullri ábyrgð á hendur meiri hlutanum sem stendur að þessu máli vegna þess að enn er verið að stórskaða þá tillögu að breyta stjórnarskrá og breyta því sem þarf að breyta í stjórnarskránni. Einn ágætur maður sagði: Mistökin voru þau að skrifa nýtt frumvarp að stjórnarskrá í stað þess að laga þau ákvæði sem eru í núgildandi stjórnarskrá.

Virðulegi forseti. Ef þingmenn fara ekki sjálfir að lögum við lagasetningu er ekki nema von að þegnar þessa lands fari ekki að lögum.