140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[15:26]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að sjá að breytingartillagan mín skuli vera komin svo langt að þingmaðurinn sem hefur það markmið að tala fyrir stjórnarskrárbreytingum líti svo á að tillaga mín sé komin inn í þingskjalið. Það er gleðilegt.

90% af þjóðinni koma ekki til með að segja já við því að halda áfram með viðræðurnar. Raunveruleikinn er allur annar og skoðanakannanir sýna að allt upp í 70% af þjóðinni vilja ekki sjá þetta ferli sem við erum í. Til að svara spurningu þingmannsins skal það upplýst hér að samkvæmt stjórnarskránni sem meðal annars Hreyfingin hefur lagt svo mikið kapp á að umbylta er þingmaður einungis bundinn af sannfæringu sinni. (Gripið fram í.) Ég er talsmaður þess hluta þjóðarinnar sem vill ekki ganga í Evrópusambandið og ég kem til með að vera það áfram og standa með þeim hluta þjóðarinnar sem kemst að því að hann vilji ekki ganga í Evrópusambandið. Ég kem til með að gjalda með starfi mínu fyrir það að fara ekki að vilja hugsanlegs meiri hluta. Það er ekki fast í hendi. Þess vegna er það bundið í stjórnarskrá að þingmenn séu einungis bundnir af sannfæringu sinni þegar kemur að atkvæðagreiðslu í þinginu. Eitthvað um þjóðarvilja í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu er ekki til. Ef þingmaður fer gegn sannfæringu sinni í atkvæðagreiðslu í þinginu er sá hinn sami brotlegur. Þetta er hin kalda staðreynd og glottið á þingmanninum má aðeins kólna vegna þess að ég fer að stjórnarskrá Íslands sem ég met mjög mikils og tel ekki ástæðu til að umbylta. Það þarf aðeins að gera á henni breytingar í örfáum liðum í stað þess að halda áfram þessu rugli sem ríkisstjórnin stendur fyrir ásamt Hreyfingunni, Alþingi til mikillar skammar og minnkunar vegna þess að stjórnskipunarvaldið er í þessum ræðustól og þessu húsi.