140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[15:40]
Horfa

Róbert Marshall (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki séð þau álit sem hv. þingmaður vitnar hér til og mun kynna mér þau þegar færi gefst og eins fljótt og auðið er.

Ég vil bara ítreka það sem ég sagði hér í ræðu minni að það er mikilvægt að við getum talað saman um þessi efni hérna. Ef hv. þingmaður hefur hugmyndir um breytingar á orðalagi sem geta einhvern veginn komið til móts við skoðun hennar væri ég mjög áhugasamur um að heyra þær þannig að við gætum þá komið til móts við þær áhyggjur eða þá tilfinningu sem hv. þingmaður hefur gagnvart því að hér sé verið að biðja sérstaklega um leyfi hjá þjóðinni. Þó svo að þarna væri verið að biðja um leyfi hef ég í sjálfu sér ekki áhyggjur af því en það veltur bara á því hvernig menn túlka það orðalag sem þarna er á ferð. Þarna er einfaldlega verið að fá fram vilja þjóðarinnar í þessum efnum. Er eitthvað óeðlilegt við það?