140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[15:41]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi það að fá leyfi hjá þjóðinni til að leggja fram frumvörp þá höfum við þingmenn nú þegar það leyfi og fengum það leyfi þegar við vorum kosin á þing, því að það eru einungis þingmenn sem mega leggja fram lagafrumvörp. Við þurfum ekkert sérstaklega að sækja þann rétt til þjóðarinnar aftur nema verið sé að boða til alþingiskosninga með þessu máli.

Það stendur ekki á mér og hefur hvorki gert í allsherjarnefnd né stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að ráðleggja þeim meiri hluta sem fer fram með þessi mál en því miður hefur ekki verið á mig hlustað. Ég hef komið með eina mjög góða og afgerandi breytingartillögu við málið, hvort ekki eigi að hætta aðildarviðræðum við Evrópusambandið nú þegar og að kosið verði um það samhliða forsetakosningum.

Varðandi það sem ég vísaði í áðan þá sendu þau samtök sem ég nefndi frá sér svohljóðandi bréf, með leyfi forseta:

„Undirritaðir harma þau óvönduðu vinnubrögð sem nú eru viðhöfð við endurskoðun á stjórnarskrá lýðveldisins og teljum það lágmarkskröfu að borin sé tilhlýðileg virðing fyrir landslögum og ákvæði í gildandi stjórnarskrá …“

Hvað segir þingmaðurinn um þessi orð?