140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[15:42]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér hefur heyrst á hv. þm. Róbert Marshall og fleirum í þessum sal að þeim lítist afskaplega vel á tillögur stjórnlagaráðs, að þeir séu afskaplega sáttir við það sem þar kemur fram. Þessar tillögur komu fram í júlílok á síðasta ári og þingið hefur starfað í allmarga mánuði síðan. Ég furða mig á því að þeir hv. þingmenn sem eru fylgjandi, a.m.k. í meginatriðum, tillögum stjórnlagaráðs skuli ekki hafa gert tillögur stjórnlagaráðs að sínum og flutt frumvarp um það í þinginu þannig að við gætum þá farið efnislega í gegnum það í stað þess að vera sífellt í einhverjum tæknilegum æfingum varðandi framkvæmdina.

Ég spyr hv. þingmann: Er einhver sérstök ástæða fyrir því að hann og skoðanabræður hans á þingi hafa ekki tekið frumvarp stjórnlagaráðs og gert það að sínu hér í þinginu?