140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[15:44]
Horfa

Róbert Marshall (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Birgir Ármannsson má vera handviss um það að í haust verður lagt fram frumvarp um breytta stjórnarskrá hér í þinginu. Þá fer fram efnisleg (Gripið fram í.) umræða um breytingar á stjórnarskránni bæði innan stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og á vettvangi þingsins. Þannig sé ég fyrir mér að ferlið eigi að vera. Það hefur tekið okkur nokkurn tíma í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að vinna með málið frá því að það kom til okkar í haust (Gripið fram í.) og við margvíslegar gestakomur, það er rétt hjá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur, sem vitnað hefur verið til á Facebook m.a. En við munum auðvitað halda áfram með málið þar sem frá er horfið, að lokinni ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu, í haust og þá munum við að sjálfsögðu sjá þær tillögur sem hv. þingmaður kallar eftir.