140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[15:46]
Horfa

Róbert Marshall (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er auðvitað rétt hjá hv. þingmanni að þetta mál hefur verið mjög lengi í ferli á vettvangi stjórnmálanna og (Gripið fram í.) ég skil að hann sé orðinn óþreyjufullur eftir að fá að sjá hér frumvarp til að geta farið í efnislega umfjöllun, en þegar við samþykktum lögin um stjórnlagaþingið sem síðar varð að stjórnlagaráði var gert ráð fyrir því að efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu um afurðina, (Gripið fram í.) um það sem frá því kæmi. Þegar stjórnlagaráð skilaði af sér var lögð á það rík áhersla af mörgum þeim sem þar störfuðu að málið færi í einhvers konar atkvæðagreiðslu meðal þjóðarinnar. Ég held að það sé sjálfsagt að gera það og bæti bara ferlið. Það er ekkert því til fyrirstöðu að menn smíði frumvarp upp úr tillögunum strax í haust en það að fara í atkvæðagreiðslu um málið og um þessi tilteknu álitaefni bætir að sjálfsögðu ferlið og leiðir til þess að það frumvarp sem lagt verður fram í haust verður vandaðra.