140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[15:54]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég má til með að spyrja hv. þingmann, af því að nú erum við að taka ákvörðun um að leggja eitt stykki stjórnarskrá fyrir þjóðina til afgreiðslu, hvað honum finnst um það að í 86 málsgreinum er vísað til þess að Alþingi eigi að gera eitt og annað.

Til dæmis stendur, með leyfi forseta:

„Öllum börnum skal tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst.“

Hvað gerist ef engin lög verða sett? Væri ekki miklu betra að stæði: Börn eiga rétt á umönnun og framfærslu — eins og ég legg til? Þá er það bara klippt og skorið í stjórnarskránni og dómstólar geta vísað til þess ef Alþingi gerir ekki neitt.

Þetta kemur fyrir í 86 málsgreinum.

Síðan er það spurningin um Lögréttu. Ég er afskaplega hrifinn af hugmyndinni um Lögréttu nema að Alþingi á að kjósa Lögréttu. Ég teldi að fullskipaður Hæstiréttur ætti að vera Lögrétta og ætti ekki bara að fjalla um frumvörp frá Alþingi heldur líka mál sem koma upp í gegnum dómskerfið og varða að ákveðin lög brjóti stjórnarskrána.