140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[16:07]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir að fá að komast að á þessum tímapunkti í þessari umræðu, það hefur orðið eitthvert mannfall á mælendaskránni. Ég þakka líka hv. þm. Eygló Harðardóttur fyrir að vilja strax gera athugasemdir við ávarpsorð mín til forseta, með því að óska eftir andsvari þá þegar að ég tók til máls.

Um þetta mál má margt segja og erfitt að koma því að á þeim tíu mínútum sem við höfum til ráðstöfunar í þessum umræðum. Ég vil segja um þetta mál í fyrsta lagi að mér finnst þetta vera óvenjulegur og sérkennilegur vinkill á ferli sem þegar er orðið fordæmalaust og furðulegt í sambandi við undirbúning stjórnarskrárbreytinga. Ég læt nægja að segja þetta hér, ég hef ekki tíma til að rekja þá sögu en hv. þingmenn þekkja hana. Ferlið einkennist af því að stöðugt er verið að skrifa upp leikreglurnar meðan á ferlinu stendur, stöðugt er verið að breyta um kúrs. Fyrir vikið hefur meiri hlutinn hér á þingi oftar en einu sinni og oftar en tvisvar lent utan vegar á þessari vegferð. Ég óttast að svo verði um það mál sem hér um ræðir.

Helsta athugasemd mín við málið snýr að því að ég tel fullkomlega ótímabært að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um skjal sem er í miðju vinnsluferli. Flestir sem um þetta hafa fjallað eru þeirrar skoðunar að gera þurfi breytingar á tillögum stjórnlagaráðs, meiri eða minni breytingar. Það að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu í miðju vinnsluferlinu er að mínu mati mjög lítið marktækt. Ég hefði skilning á því ef hv. þingmenn teldu rétt, þrátt fyrir að ekki sé mælt fyrir um það í stjórnarskránni, að bera endanlegar tillögur um breytingar á stjórnarskrá undir þjóðaratkvæði, ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu eða bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu að breyttri stjórnarskrá, ég hef skilning á því.

Ég hef hins vegar miklu minni skilning og miklu minni þolinmæði gagnvart þeirri leið sem hér er farin vegna þess að mér finnst á margan hátt verið að afvegaleiða umræðuna, verið að afvegaleiða fólk með því að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um skjal sem flestir ef ekki allir, meira að segja tillöguflytjendur sjálfir, viðurkenna að er ekki fullbúið, á eftir að breyta. Bara smábreytingar, bera saman við lög og alþjóðasamninga, bara smávegis. Það veit enginn hvað felst í þeim orðum í dag. Það getur enginn sagt til um það hversu miklar breytingar verða ef farið verður að breyta texta stjórnlagaráðs í samræmi við önnur lög og alþjóðasamninga, það getur enginn svarað því á þessari stundu. Þá spyr ég: Hvers vegna er verið að fara með þetta í þjóðaratkvæðagreiðslu núna? Af hverju klárar ekki þingið, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og þingið allt, vinnu sína, gengur frá fullbúnu frumvarpi og leitar álits þjóðarinnar á því? Ég teldi að það væru miklu eðlilegri vinnubrögð.

Eins og þessi atkvæðagreiðsla er sett upp, og eins og þær spurningar sem ætlunin er að spyrja eru settar upp, held ég að menn hljóti að velta fyrir sér um hvað sé raunverulega verið að kjósa. Kjósandinn hlýtur að spyrja: Hvernig verður atkvæði mitt túlkað? Ef ég segi já eða ef ég segi nei, hvernig verður það túlkað? Það er ekki alveg á hreinu. Þýðir nei andstöðu við að lagt verði fram frumvarp á þingi byggt á tillögum stjórnlagaráðs? Þýðir nei andstöðu við að yfir höfuð verði gerðar nokkrar breytingar á stjórnarskrá? Og svo má lengi telja. Hvað þýðir já? Ef fólk segir já, hvað gefur það þinginu siðferðislega mikið svigrúm til að gera breytingar eftir á? Getur einhver svarað því á þessari stundu? Hvað þýðir já og hvað þýðir nei? Geta hv. þingmenn svarað því?

Það er mjög mikilvægt að það komi fram á þessu stigi máls hversu miklu hv. þingmenn sem að þessu máli standa telja að hægt sé að breyta. Þeir munu auðvitað verða spurðir um það í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslu, ef til hennar kemur, hverju þeir vilji breyta, hvernig þeir ætli að túlka já-ið og hvernig þeir ætli að túlka nei-ið. Þeir geta ekkert verið stikkfrí í því, þeir hljóta að þurfa að svara því.

Það eru fleiri þættir í þessu sambandi. Ég get nefnt það, eins og reyndar fleiri hafa gert í þessari umræðu, að ástæðan fyrir því að farið er í þjóðaratkvæðagreiðslu á þessu stigi hefur ekkert með málið sjálft að gera, hefur ekkert með vandaðan undirbúning að gera. Það hefur með pólitík að gera. Ákveðnir forustumenn í ríkisstjórnarflokkunum og Hreyfingunni telja sig bundna af því að hafa ítrekað gefið yfirlýsingar um að það skyldi setja tillögurnar í þjóðaratkvæði og það þyrfti að gerast meðfram forsetakosningum. Það er ástæðan, það er eina ástæðan. Það er ekki umhyggja fyrir málinu sjálfu, það er ekki umhyggja fyrir því að vinna þetta verk eins vel og hægt er, ónei. Það er bara til þess að skera tiltekna stjórnmálamenn og stjórnmálaforingja niður úr þeirri snöru sem þeir hafa sjálfir komið sér í með ógætnum yfirlýsingum og vanhugsuðum.

Það sem við stöndum frammi fyrir í dag er þess vegna afleiðing af meinloku í þessu máli. Við erum föst í ákveðnu fari út af einhverri meinloku um að setja þurfi þetta mál í þjóðaratkvæðagreiðslu á þessu stigi þó að það sé engan veginn tilbúið til þess.

Fleiri þættir hafa verið nefndir. Það hefur verið nefnt að svona þjóðaratkvæðagreiðsla samhliða forsetakosningum geti haft smitandi áhrif, þ.e. að forsetakosningar geti smitað inn í þjóðaratkvæðagreiðslu og öfugt. Það veit enginn hvernig þetta á eftir að koma út. Mörgum kann að finnast þetta áhugaverð tilraun en ég tel að þetta sé dálítið varasöm tilraun. Við erum einu sinni að tala um annars vegar kosningu til æðsta embættis íslenska lýðveldisins, æðsta embættis þjóðarinnar, og hins vegar um grundvallarlög þjóðarinnar og mér finnst gáleysislegt að ætla að blanda því tvennu saman.

Mér finnst líka hætta á ruglingi fólgin í því að hafa þjóðaratkvæðagreiðsluna tvíþætta eins og gert er í þessari tillögu, annars vegar að spyrja, eins og gert er í fyrri lið, hvort leggja eigi fram á Alþingi frumvarp sem byggist á tillögu stjórnlagaráðs eftir að á því hafi verið gerðar lagfæringar, eins og segir nokkurn veginn orðrétt í texta tillögunnar, og hins vegar að spyrja um einhver fimm tiltekin atriði sem komið er inn á með einum eða öðrum hætti í heildarpakkanum. Ég tel að þetta geti leitt til þess að niðurstöður verði misvísandi, það er alla vega hætta á því. Það eykur túlkunarvandann að spyrja með þessum hætti.

Ég verð líka á þessu stigi máls, á þessum stað í umræðunni, að vekja athygli á því að bæði valið á spurningum og orðalag spurninga er mjög viðkvæmt viðfangsefni og ég held að það sé töluvert langt í land ef á annað borð verður farið í þjóðaratkvæðagreiðslu að einhver niðurstaða sé komin í það, bæði hvað varðar val á spurningum og eins hvað varðar orðalag þeirra. Það er grundvallarregla í sambandi við þjóðaratkvæðagreiðslur að það þarf að gæta þess að spurningarnar séu skýrar, óskilyrtar og ekki leiðandi. Mín tilfinning er sú að þær spurningar sem hér liggja fyrir, sumar hverjar að minnsta kosti, uppfylli ekki þau skilyrði. Yfir þetta þarf að fara. Landskjörstjórn hefur þegar látið í ljós ákveðið álit á því, sem er reyndar ekki enn orðin formleg umsögn. Það er óljóst hvernig staðan er með það, en alla vegar er komið bréf frá landskjörstjórn þar sem ákveðnar athugasemdir eru gerðar. Ég tel ástæðu til að skoða fleiri þætti í því sambandi.

Hæstv. forseti. Það er auðvitað töluvert viðkvæmt mál, þegar við erum að tala um breytingar á stjórnarskrá, að velja einhver fimm tiltekin atriði til að spyrja um. Nýmælin í tillögum stjórnlagaráðs eru miklu fleiri en sem lýtur að þessum fimm atriðum, miklu fleiri. Það eru meðal annars atriði sem varða forsetaembættið, atriði sem varða fullveldisframsal, atriði sem eru nýmæli í íslenskum stjórnlögum og mjög umdeild mál meðal (Forseti hringir.) þjóðarinnar. Þessu vil ég halda til haga, hæstv. forseti, á þessum stað í umræðunni.