140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[16:19]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi reynsluna frá Bandaríkjunum held ég að betra væri fyrir Íslendinga að horfa til Evrópu en Bandaríkjanna þegar kemur að kosningum svona almennt talað. Kjörsókn í Bandaríkjunum er mjög lítil svo því sé haldið til haga, bæði hvað varðar almennar kosningar og eins þjóðaratkvæðagreiðslur. Þar er lítil kjörsókn. Mjög stór hluti þjóðarinnar lætur sig þær kosningar sem þar fara fram engu varða. Ég held því að ekki sé heppilegt að taka módel þaðan og yfirfæra á okkar samfélag þar sem kjörsókn er sem betur fer yfirleitt mikil, nema í stjórnlagaþingskosningunum, rétt er að halda því til haga, þar sem 2/3 þjóðarinnar sá ekki ástæðu til að taka þátt í af einhverjum ástæðum. Kannski vegna þess að fólk hafði ekki nægilega mikinn áhuga á stjórnarskránni eða stjórnarskrárbreytingum, kannski vegna þess að það mál var ekki ofarlega á forgangslista þess, kannski vegna þess að kosningareglurnar voru allt of flóknar, ruglingslegar, ógagnsæjar. Kannski. Ég veit það ekki.

Ég óttast bara, svo ég svari hv. þingmanni — það sem ég óttast við þetta mál er að við séum að stefna út í svipað rugl, fyrirgefðu orðalagið, hæstv. forseti, en ég fann ekkert annað í svipinn sem ég gat notað yfir það, svipað rugl og við vorum að tala um varðandi framkvæmd stjórnlagaþingskosninganna sem voru sögulega þessu þingi eða meiri hluta þess til skammar.