140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[16:20]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil ítreka seinni tvær spurningarnar mínar: Hver er afstaða hv. þingmanns til þess að spurt verði hvort eigi að halda áfram aðildarviðræðum við Evrópusambandið eða ekki, þ.e. breytingartillaga sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir hefur lagt fram? Og hver ætti í raun að hafa réttinn til að setja mál í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu?

Þó að það hafi komið fram í ræðu hv. þingmanns og líka í svari hans við spurningu minni að hann telji ekki ástæðu til að horfa sérstaklega til Bandaríkjanna þá er það nú hins vegar þannig að ýmislegt er hægt að læra þar af. Telur þingmaðurinn að Íslendingar séu að einhverju leyti minna hæfir eða hættara við ruglingi en Bandaríkjamönnum ef þeir tækju þátt í þessari þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem þeir mundu annars vegar þurfa að svara því hverjir þeir vilja að verði forseti okkar næstu fjögur árin eða tvö og jafnvel styttra, eða svara spurningum um hvort vinna eigi áfram að gerð nýrrar stjórnarskrár á grundvelli tillagna frá stjórnlagaráði og síðan að taka afstöðu til nokkurra atriða og að lokum því til viðbótar að spyrjast fyrir um aðildarviðræðurnar við ESB? Treystir þingmaðurinn Íslendingum til þess að taka afstöðu til þessara spurninga?