140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[16:32]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég verð að játa að þingreynsla mín er ekki löng, spannar orðið ein níu ár, en ég skil ekki hvers vegna sú breytingartillaga er fram komin hér í þinginu. Ég vissi ekki betur en að við hefðum til umfjöllunar þingmál í utanríkismálanefnd sem er góðra gjalda vert, þar sem þetta sjónarmið kemur fram. Ég vil ekki útiloka fyrir fram að unnt sé að efna til atkvæðagreiðslu á einhverjum tímapunkti um það málefni sem þar er lagt til. Ég skil ekki hvernig á því stendur að við þær aðstæður sé hægt að flytja breytingartillögu við alls óskylt mál með þessum hætti og held að það sé sannarlega ekki gott fordæmi. (Gripið fram í.) Það er mikilvægt að umræður og upplýsingar fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu geti verið sem vandaðastar og þess vegna er affarasælast að ein þjóðaratkvæðagreiðsla sé um hvert meginmálefni, þó að ég ætli svo sem (Forseti hringir.) ekki að útiloka neitt í þessu sambandi.