140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[16:37]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, ég geri það, ég hef jafnan litið svo á að ef við sem þjóðkjörnir fulltrúar óskum eftir því að þjóðin segi álit sitt á einhverjum efnum getum við verið bundin af þeirri niðurstöðu sem úr því kemur, þó ekki formlega en lýðræðislega. Við værum til dæmis bundin af slíkri niðurstöðu um aðild að Evrópusambandinu ef það væri niðurstaða meiri hluta þjóðarinnar að vilja fara í þá vegferð. Þó að við værum ekki formlega eða eftir lögum sjálfum bundin að því að fylgja þeirri niðurstöðu held ég að meiri hlutinn í þinginu yrði að tryggja að slík niðurstaða yrði að veruleika í þingsölum, því það er til lítils að leita til þjóðarinnar ef svo er ekki. Þarna eru auðvitað fyrirvarar um að tillagan krefjist nánari yfirferðar og hér sé aðeins lagt fram frumvarp. Frumvarp getur eðli máls samkvæmt auðvitað tekið breytingum í þinglegri meðferð. Ég held að menn væru í öllum aðalatriðum bundnir af þeirri tillögu sem spurt er um (Forseti hringir.) og eftir atvikum einstaka breytingum sem hægt er að gera á grundvelli annarra spurninga í atkvæðagreiðslunni.